Fótbolti

Kristian að ganga til liðs við Twente

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kristian Hlynsson var settur í vonda stöðu hjá Ajax og er í leit að nýju liði.
Kristian Hlynsson var settur í vonda stöðu hjá Ajax og er í leit að nýju liði. Nesimages/Raymond Smit/DeFodi Images via Getty Images

Eftir að hafa verið settur í kælingu, neitað um klefa og bannað að æfa með aðalliðinu virðist Kristian Hlynsson vera að yfirgefa Ajax og ganga frá félagaskiptum til Twente í hollensku úrvalsdeildinni.

Kristian var einn af sjö leikmönnum sem fékk smáskilaboð frá þjálfara Ajax um síðustu helgi, þar sem var tilkynnt að þeir væru ekki hluti af framtíðaráformum félagsins.

Sjömenningarnir mega ekki æfa með aðalliðinu, leggja bílnum á bílastæði leikmanna og fá ekki pláss í búningsherbergi liðsins. Þeir fá einn sjúkraþjálfara sem þeir skipta á milli sín og mega æfa sjálfir á meðan aðalliðið fær sér hádegismat, samkvæmt De Telegraaf.

Við ömurlegar aðstæður þurfti Kristian því að leita sér að nýju liði og virðist vera að lenda hjá Twente, sem spilar einnig í hollensku úrvalsdeildinni.

Kristian var lánaður til Sparta Rotterdam seinni hluta síðasta tímabils og stóð sig vel. ANP/Getty Images

Félagið er sagt hafa verið áhugasamt eftir að hafa fylgst með Kristiani í lánsdvölinni hjá Sparta Rotterdam á síðasta tímabili og ákveðið að festa kaup eftir að Kristian fékk fréttirnar um að hann ætti enga framtíð hjá Ajax.

Twente er sagt ætla að borga samninginn út, það er að segja greiða Ajax öll laun sem félagið hefði annars borgað Kristiani og semja síðan við hann upp á nýtt, en óvíst er hvort meira fé þurfti að leggja fram til að klófesta hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×