Erlent

Sau­tján ára drengur drukknaði á Hróars­keldu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Himmelsøen liggur upp við hátíðarsvæðið og er vinsæll baðstaður gesta.
Himmelsøen liggur upp við hátíðarsvæðið og er vinsæll baðstaður gesta. Sveitarfélagið Hróarskelda

Sautján ára drengur lést í dag á tónlistarhátíðinni í Hróarskeldu á Sjálandi. Hann hafði farið að njóta góða veðursins við bakka Himmelsøen sem liggur rétt utan við hátíðarsvæðið og drukknaði.

Drengurinn kom frá Kaupmannahafnarsvæðinu og var gestur á hátíðinni að sögn lögreglunnar á Miðvestur-Sjálandi en það er Politiken sem greinir frá.

Himmelsøen er lítið stöðuvatn sem liggur rétt utan við hátíðarsvæðið og er vinsælt fyrir hátíðargesti að synda þar þegar sólin skín líkt og hún gerði í dag en hitastigið mældist 31 stig þegar hlýjast var.

Sjónarvottar sem ræddu við Politiken lýsa því að lokað hafi verið fyrir aðgang að Darupvej sem liggur að vatninu. Þá hafi sjúkrabílar, björgunarsveitarbílar og lögreglubílar keyrt á fleygiferð á hátíðarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá Ritzau var björgunarþyrla einnig kölluð út.

„Á þessu frumstigi málsins er litið svo á að um slys hafi verið að ræða, rannsókn stendur yfir,“ segir í færslu lögreglunnar.

Skipuleggjendur tónlistarhátíðinnar í Hróarskeldu segjast harmi slegnir.

„Við erum miður okkar og sendum innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda. Við veitum lögreglunni alla þá aðstoð sem við getum,“ segir í tilkynningu frá hátíðarskipuleggjendum en Ekstra Bladet greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×