Innlent

Svona verður Sæ­braut í stokki

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá þann kafla Sæbrautar sem fer í stokk.
Hér má sjá þann kafla Sæbrautar sem fer í stokk. Vísir/Sara

Breytingar á Vogahverfi þegar Sæbraut verður sett í stokk munu auka öryggi gangandi og hjólandi og bæta hljóð- og loftgæði. Gert er ráð fyrir verklokum árið 2030 og er ráðgert að verkið kosti um 25 milljarða króna.

Um kílómeters langur kafli af Sæbrautinni verður settur í stokk, frá Miklubraut og norður fyrir gatnamót Kleppsmýrarvegar og Skeiðarvogs. Tvær almennar akreinar verða í hvora átt og þriðja akrein, sem leiðir til að- og fráreina inn í og út úr hverfunum.

„Þetta mun auðvitað greiða leið akandi vegfarenda á sama tíma og það eru tvenn umferðarljós sem fara út og það eru þau sem geta verið ákveðin í hindrun í för fólks þegar mikil umferð er í gangi,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Á yfirborðinu verður útbúinn borgargarður, nægur gróður og aðstaða til útivistar og hreyfingar. Leggja á mikla göngu- og hjólastíga og Borgarlínan mun þvera suðurhluta stokksins.

„Þetta mun stórbæta lífsgæði fyrir þessi tvö aðliggjandi hverfi sem eru nú rist í sundur af stórri umferðarþungri götu,“ segir Dóra. 

Þessi loftmynd sýnir vel hvaða kafli Sæbrautar er undir. Vísir/Sara

„Á sama tíma er þetta algjör forsenda fyrir borgarlínu og austur-vestur tengingu hennar sem mun fara yfir stokkinn á suðurendanum.“

Gert er ráð fyrir nokkrum umferðartöfum þegar framkvæmdir hefjast. Bráðabirgðavegur, með tvær akreinar, í báðar áttir, verður útbúinn fyrir austan Sæbraut á meðan á framkvæmdum stendur auk þess sem gert er ráð fyrir að umferð aukist um nærliggjandi götur.

„Og það verður gerður ákveðinn veggur til að skerma byggðina frá hljóðmengun og loftmengun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×