Sport

Willum nýr for­seti ÍSÍ með al­gjörum yfir­burðum

Sindri Sverrisson skrifar
Willum Þór Þórsson þakklátur í pontu eftir að hafa verið valinn til að leiða íslenska íþróttahreyfingu næstu fjögur árin.
Willum Þór Þórsson þakklátur í pontu eftir að hafa verið valinn til að leiða íslenska íþróttahreyfingu næstu fjögur árin. vísir/Anton

Willum Þór Þórsson var í dag kjörinn nýr forseti ÍSÍ, á 77. íþróttaþingi sambandsins. Fimm buðu sig fram í embættið og vann Willum algjöran yfirburðasigur.

Willum tekur við af Lárusi Blöndal sem verið hefur forseti ÍSÍ frá árinu 2013, þegar hann tók við embættinu eftir andlát Ólafs Rafnssonar.

Auk Willums voru í framboði þau Brynjar Karl Sigurðsson, Magnús Ragnarsson, Olga Bjarnadóttir og Valdimar Leó Friðriksson.

Willum hlaut 109 af 145 greiddum atkvæðum. Olga kom næst með 20 atkvæði, Magnús hlaut 9, Valdimar 3 en Brynjar Karl ekkert.

Lárus Blöndal óskar arftaka sínum, Willum Þór Þórssyni, til hamingju.vísir/Anton

Willum er kjörinn til næstu fjögurra ára.

Þetta var í fyrsta sinn í tæp tuttugu ár sem kosið var um forseta ÍSÍ og framboðin hafa aldrei verið fleiri.

Frambjóðendurnir fimm börðust um 146 atkvæði (greidd atkvæði voru á endanum 145) en þingfulltrúar skiptast að mestu í tvo 72 manna hópa. Annar frá sérsamböndunum, allt frá því minnsta, Keilusambandinu KLÍ sem fær einn fulltrúa, og yfir í það stærsta, Knattspyrnusambandið KSÍ sem fær sex fulltrúa. Hinn hópurinn er skipaður íþróttahéruðunum en þar er Ungmennasamband Kjalarnesþings, UMSK með 16 fulltrúa og Íþróttabandalag Reykjavíkur, ÍBR með 19 fulltrúa í yfirburðarstöðu miðað við nítján sambönd sem eiga aðeins einn fulltrúa. Við þessa tvo hópa bætast svo tveir fulltrúar úr íþróttamannanefnd ÍSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×