Innlent

Borgin rukkar hesta­menn og þeir hætta við reiðina

Árni Sæberg skrifar
Frá fyrri miðbæjarreið Landssambands hestamannafélaga.
Frá fyrri miðbæjarreið Landssambands hestamannafélaga. Landssamband hestamannafélaga

Miðbæjarreið Landssambands hestamannafélaga mun að óbreyttu ekki fara fram í ár. Ástæðan er sögð viðburðargjald sem Reykjavíkurborg hyggist innheimta fyrir viðburðinn.

Í tilkynningu þess efnis á vef landssambandsins segir að miðbæjarreiðin sé ekki að nokkru leyti tekjuaflandi fyrir sambandið og því sé kostnaðurinn við viðburðinn orðinn slíkur að sambandið sjái sér ekki fært að standa undir honum.

Viðburðurinn veki athygli út fyrir landsteinana

„Það er leitt að viðburður sem hefur það að markmiði að vekja athygli á íslenska hestinum og mikilvægi hans í íslenskri menningu og samfélagi geti ekki farið fram.“

Miðbæjarreiðin veki alltaf mikla athygli og eftirtekt bæði innanlands og utan enda sé borgin þekkt fyrir nálægð sína við ósnortna náttúru. auk þess sem íslenski hesturinn hafi löngum verið ein af mikilvægustu „auðlindum“ Íslands, sérstaklega þegar litið er til ferðamanna sem margir koma hingað gagngert til að berja hann augum. 

Undrast rukkunina

Þá séu fáar höfuðborgir sem státi af jafnmikilli hestamennsku og Reykjavík en þar hafi til að mynda Landsmót hestamanna farið fram á síðasta ári, sem sé einn stærsti íþrótta- og menningarviðburður sem haldinn er á Íslandi.

„Það vekur því bæði undrun og vonbrigði að Reykjavíkurborg hafi ákveðið að setja slíkt gjald á viðburðinn og vonumst við auðvitað til að sú ákvörðun verði endurskoðuð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×