Innlent

Kona réðst á pizzasendil sem vildi fá símann sinn aftur

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Einar

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var í gærkvöld eða nótt tilkynnt um konu sem var að ráðast á pizzasendil í Reykjavík.

Í dagbók lögreglunnar segir að konan hafi stolið síma pizzasendilsins og hann elt hana. Hún hafi þá veist að honum með höggum í andlit hans. Konan er sögð hafa verið í annarlegu ástandi og var vistuð í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Atvikið átti sér stað í umdæmdi lögreglustöðvar 1, sem sér um löggæslu í Vesturbæ, Miðborg, Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og á Seltjarnarnesi.

Í sama umdæmi var lögreglu tilkynnt um mann að ganga berserksgang á hótelherbergi. Maðurinn er sagður hafa haft orð á því að hann myndi slást við lögregluna þegar hún kæmi. Hann er sagður hafa verið í annarlegu ástandi sökum fíkniefna og verið óútreiknanlegur í hegðun.

„Hann æstist og róaðist niður til skiptis,“ segir í dagbók lögreglu. Fram kemur að í herbergi hans hafi fundist meint fíkniefni. Maðurinn hafi verið handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem enn mmeiri fíkniefni fundust í hans vörslu.

Í Breiðholti var tilkynnt um mann beran að ofan með barefli við húsnæði.

„Hann verulega ölvaður og taldi það vera mikla köllun hans að vernda húsið í viðræðum við lögreglu. Hann sagðist ómögulega getað lofað því að halda ekki áfram uppteknum hætti,“ segir í dagbók lögreglu, en hann var handtekinn og vistaður í klefa.

Tilkynnt var um eld á tveimur stöðum í borginni. Annars vegar í grilli matsölustaðar í umdæmi lögreglustöðvar 1, en slökkviliðinu gekk greiðlega að slökkva þann eld og segir í dagbókinni að engar meiriháttar skemmdir hafi orðið í eldhúsinu fyrir utan eldunartækið.

Hins vegar var tilkynnt um eld í þvottavél á heimili í umdæmi lögreglustöðvar 2, sem sér um Hafnarfjörð og Garðabæ. Búið hafi verið að slökkva eldinn þegar lögreglan kom.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×