Körfubolti

„Mætum ótta­laus“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Einar Árni Jóhannsson er þjálfari Njarðvíkur.
Einar Árni Jóhannsson er þjálfari Njarðvíkur. Paweł/Vísir

Haukar taka á móti Njarðvík í Ólafssal í Hafnarfirði í kvöld en um er að ræða hreinan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í Bónus deild kvenna.

„Ég er bara gríðarlega spenntur og mikil forréttindi að fá að spila svona langt fram inn í vorið og mikil tilhlökkun í mér, stelpunum og Njarðvíkingum öllum,“ segir Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur.

Haukar unnu fyrstu tvo leikina í einvíginu og stóð liðið heldur betur vel að vígi. En Njarðvík hefur komið til baka og unnu næstu tvo leiki. Það er því 2-2 fyrir leik kvöldsins, allt jafnt.

„Maður hefur alveg verið í þeirri stöðu að komast í 2-0 og lenda í því að andstæðingurinn jafni einvígin. Það er ekkert þægileg staða en ég er lítið að pæla í þessu og er bara einbeittur á mitt lið, og þar er tilhlökkun og spenna.“

Hafa trú á sér

Hann segir að liðið muni halda áfram að byggja á því það sem liðið hefur verið að gera vel í síðustu tveimur leikjum.

„Það er bara eins og gengur milli leikja, einhverjir hlutir sem við tvíkum til að reyna ná í okkar allra bestu frammistöðu. En umfram allt vitum við að við erum með stelpur sem eru ótrúlega samheldnar og hafa trú á sér og hvor annarri. Við mætum óttalaus og gerum okkar allra besta.“

Einar segir að hausinn skipti miklu máli í oddaleik.

„Það er oft talað um að taktík sé í aukahlutverki í svona leikjum og hugarfar, stemning og allt sem þessu fylgir mun vinna svona leik.“

Þessi lið mættust í oddaleik um titilinn síðast árið 2022. Þá vann Njarðvík. Haukar urðu síðast Íslandsmeistarar árið 2018. Leikurinn hefst 19:30 en útsending Stöðvar 2 Sports fer í loftið klukkustund fyrr, eða 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×