Innlent

„Þetta er mál sem varðar ekki einungis kaþólsku kirkjuna“

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Jakob Rolland, kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, telur næsta páfa munu halda áfram starfi Frans við að hlúa að jaðarsettum og þeim sem minna mega sín.
Jakob Rolland, kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, telur næsta páfa munu halda áfram starfi Frans við að hlúa að jaðarsettum og þeim sem minna mega sín. Vísir/Stöð 2

Kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar á Íslandi telur mikilvægt að hafa mann sem er vaxinn starfi sínu á páfastóli. Hann á ekki von á að páfakjör dragist á langinn og telur að efst á baugi næst páfa verði að hvetja til friðar. Páfakör varði ekki aðeins kaþólsku kirkjuna.

Frans páfi var ötull talsmaður jaðarsettra og fátækra. Jakob Rolland, kanslari biskupsdæmis kaþólsku kirkjunnar, telur að næsti páfi muni feta í hans fótspor í þeim málum.

„Hvað þetta varðar þá hugsa ég örugglega að næsti páfi muni halda áfram að leita til þeirra sem minna mega sín og sýna þeim nærveru kirkjunnar og hvetja kristna menn til þess að hugsa um fólk sem er ekki í aðalstraumi þjóðfélagsins,“ segir Jakob.

Það eru átök víða um heim og erfið verkefni sem bíða nýs páfa sem andlegs leiðtoga. Hvað heldurðu að verði efst á baugi?

„Eins og hjá Frans páfa að hvetja til friðar. Það var svolítið merkilegt að það síðasta sem Frans páfi gerði var að hvetja heimsbyggðina til að stilla til friðar í Úkraínu og Gasa. Frans páfi hringdi á hverjum einasta degi til kristinna manna í Gasa, á hverju einasta degi stutt símtal við prestinn þar. Næsti páfi verður að halda þessu áfram, að hvetja til friðar og tala við ráðamenn um að leita lausna í öllum þessum átökum,“ segir hann.

Söfnuðurinn fer á bæn þegar eitthvað stórt gerist

Frans tilnefndi mjög marga kardínála í embættistíð sinni og hefur meirihluti þeirra sem kýs ekki hitt hvor annan áður. Hins vegar segir Jakob að meðal kardínálanna séu ákveðin nöfn sem allir kardinálar þekkja.

Jakob hefur verið búsettur á Íslandi í 40 ár og þjónað bæði við St. Jósefskirkju og Landakotskirkju.

Heldurðu að það muni taka langan tíma fyrir þá að komast að niðurstöðu?

„Erfitt að segja, það eru nokkrir sem eru efstir á listanum sem mögulegir páfar. Parolin kardínáli, sem var einhvers konar forsætisráðherra Frans páfa, þekkir alla kardínála og allir kardínálar þekkja hann. Þannig hann er oft nefndur sem mögulegur páfi,“ segir Jakob.

„Ef það eru sterkar fylkingar sem flykkjast á bak við nokkra kardínála þá getur það dregist eitthvað á langinn, en ég á ekki von á því,“ segir hann.

Hvaða þýðingu hefur þessi tími fyrir kaþólikka? Fylgjast allir grannt með því sem er í gangi í Páfagarði?

„Það held ég. En það er líka sérstakur tími til bæna. Maður sér í Nýja testamentinu þegar eitthvað stórt var að gerast, postularnir voru í hættu eða voru að hefja eitthvað stórt, þá fór söfnuðurinn á bæn og bað fyrir þeim. Það er svona í dag, kaþólska kirkjan er á bænavakt,“ segir Jakob.

Mikilvægt að hafa mann sem er starfinu vaxinn

Jakob segir að páfakjör varði ekki aðeins kaþólsku kirkjuna og hafi miklar afleiðingar. Í messu í Landakotskirkju í kvöld bað söfnuðurinn fyrir kardínálunum, að þeir velji réttan mann og fái innblástur heilags anda í þessari ákvörðun.

Þetta er stór og mikilvæg ákvörðun?

„Já, næsti páfi mun væntanlega sitja í páfastóli næstu ár og áratugi kannski. Þá er mikilvægt að hafa mann sem er vaxinn þessu starfi og sér það sem þarf að gera og því sem þarf að breyta innan kirkjunnar. Hver páfi er með sínar eigin áherslur og kirkjan er lifandi líkami, má segja,“ segir Jakob.

„Þetta er mál sem varðar ekki einungis kaþólsku kirkjuna heldur alla þá sem treysta því að Guð sjái um heimsmál og mál hvers einasta manns. Þegar páfakjör er í gangi þýðir það líka að við viljum biðja góðan Guð um að halda vel utan um okkur, gefa okkur aðgang að Jesú kristi og að kirkjan sé vettvangur þar sem við finnum Jesú Krist.“


Tengdar fréttir

Þeir sem gangi inn sem páfaefni gangi út sem kardinálar

Páfakjör hefst í dag og munu kardínálar kaþólsku kirkjunnar setjast niður í Sixtínsku kapellunni síðdegis og hefja leit að nýjum páfa. Prestur kaþólikka á Norðurlandi segir líklegt að kjörið dragist á langinn. Ólíklegt sé að einn þeirra sem gangi inn í kjörið sem páfaefni standi uppi sem næsti páfi.

Bein útsending: Páfakjör í Páfagarði

Kardinálar kaþólsku kirkjunnar hafa læst sig inn í Sixtínsku kapellunni, þar sem þeir munu vera þar til þeir hafa valið nýjan páfa. Vísir fylgist með gangi mála á sérstakri páfakjörsvakt en einnig er hægt að horfa á beina útsendingu frá Páfagarði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×