Lífið

Býður í hláturstund við gömlu þvotta­laugarnar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ásta segir alla velkomna í hláturjóga við gömlu þvottalaugarnar á morgun.
Ásta segir alla velkomna í hláturjóga við gömlu þvottalaugarnar á morgun. Samsett

Ásta Valdimarsdóttir hláturjógakennari býður fólki að halda upp á alþjóðlegan hláturjógadag á morgun með hláturstund við gömlu þvottalaugarnar í Laugardalnum.

„Þessi dagur er haldinn hátíðlegur í fjölmörgum löndum,“ segir hún en í ár eru þrjátíu ár frá því að indverski læknirinn Dr. Madan Kataria stofnaði fyrsta hláturklúbbinn ásamt konu sinni jógakennaranum Madhuri.

Í tilkynningu um viðburðinn segir að hláturjóga sé blanda hláturæfinga, jógaöndunar og slökunar og byggist á þeirri staðreynd að hvort sem hlegið er vegna utanaðkomandi áreitis eða af einskærri ákvörðun bregðist líkaminn við á sama hátt.

„Við notum hláturinn til að láta okkur líða betur, sem tæki,“ segir Ásta.

Hún segir fólki oft þykja það vandræðalegt í byrjun að hlæja eftir pöntun en það sé svo gott fyrir líkama og sál. Það auki vellíðan og jafnvel blóðflæði í líkamanum auk þess sem öndunin verður dýpri.

„Þegar fólk hlær svona saman er það að leika sér eins og börn. Þá myndast endorfín og gleðihormón í líkamanum og við finnum fyrir gleðinni.“

Viðburðurinn hefst klukkan 13 á morgun, sunnudag. Ásta segir alla velkomna sem áhuga hafa.

„Það verður haldið upp á þetta um allan heim. Fólk að hlæja saman og biðja fyrir friði, senda góðar óskir í alheiminn og óska eftir friði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.