Fótbolti

Tíma­bilinu lík­lega lokið hjá Orra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson meiddist á æfingu á fimmtudaginn.
Orri Steinn Óskarsson meiddist á æfingu á fimmtudaginn. getty/Juan Manuel Serrano Arce

Orri Steinn Óskarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í fótbolta, leikur væntanlega ekki meira með Real Sociedad á tímabilinu.

Orri meiddist aftan í læri á æfingu hjá Real Sociedad og félagið greindi í kjölfarið frá því að hann myndi líklega ekki spila meira með á tímabilinu.

Real Sociedad keypti Orra frá FC Kaupmannahöfn í lok ágúst á síðasta ári. Hann hefur spilað 23 leiki í spænsku úrvalsdeildinni í vetur og skorað þrjú mörk.

Orri lék auk þess fimm leiki með Real Sociedad í spænsku bikarkeppninni og skoraði fjögur mörk í níu leikjum í Evrópudeildinni.

Real Sociedad er í 11. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 42 stig. Liðinu hefur gengið illa að skora í vetur. Það hefur aðeins gert 32 mörk í 33 deildarleikjum en einungis fjögur lið hafa skorað færri mörk.

Orri er annar Íslendingurinn sem leikur með Real Sociedad en Alfreð Finnbogason spilaði 27 leiki og skoraði fjögur mörk með liðinu tímabilið 2014-15.

Íslenska landsliðið mætir Skotlandi og Norður-Írlandi í tveimur vináttulandsleikjum 6. og 10. júní. Orri verður væntanlega í kapphlaupi við tímann að ná þeim leikjum. Hann hefur skorað sjö mörk í sextán leikjum fyrir landsliðið og var gerður að fyrirliða þess þegar Arnar Gunnlaugsson tók við því fyrr á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×