Veður

Skýjað og rigning af og til

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu átta til þrettán stig, en aðeins svalara við norðurströndina.
Hiti á landinu verður á bilinu átta til þrettán stig, en aðeins svalara við norðurströndina. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir vestlægri átt í dag, fimm til þrettán metrum á sekúndu, þar sem verður skýjað og dálítil súld eða rigning af og til. Þó verður bjart að mestu suðaustantil.

Á vef Veðurstofunnar segir að eftir hádegi snúist í norðlæga átt og dragi hægt úr vindi.

Það mun létta til á vestan- og sunnanverðu landinu, en áfram verður dálítil væta fyrir norðan og austan. Hiti verður á bilinu átta til þrettán stig, en aðeins svalara við norðurströndina.

„Á morgun verður hæg breytileg átt og víða bjart og sólríkt veður, en skýjað og sums staðar lítilsháttar rigning á suðaustanverðu landinu. Hiti 9 til 15 stig yfir daginn.

Á sunnudag gera spár ráð fyrir suðvestan 5-13 m/s. Skýjað með köflum og dálítil rigning eða súld vestanlands, hiti 6 til 11 stig. Lengst af þurrt á austanverðu landinu og hiti 12 til 18 stig.

Í byrjun næstu viku er útlit fyrir suðlægar áttir. Rigning af og til og hiti 6 til 11 stig á sunnan- og vestanverðu landinu, en bjart með köflum og heldur hlýrra norðaustantil,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Hæg breytileg átt og yfirleitt léttskýjað. Hiti 7 til 14 stig yfir daginn.

Á sunnudag: Suðvestan 5-13 m/s, hvassast norðvestantil. Lítilsháttar væta, en bjartviðri norðaustan- og austanlands. Hiti 7 til 15 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á mánudag: Sunnan 3-8, en 8-13 á vestanverðu landinu. Skýjað og rigning eða súld öðru hverju, en bjart með köflum á Norður- og Austurlandi. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag og miðvikudag: Suðlæg átt, rigning af og til og hiti 8 til 12 stig, en bjartviðri norðaustantil á landinu með hita að 18 stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×