Íslenski boltinn

Þeir bestu (20.-16. sæti): Glæsi­legur endir gamalla manna og dönsku demantarnir í Kapla­krika

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 20-16.
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 20-16. grafík/sara

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 20.-16. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í fótbolta frá 1992.

20. Bjarki Gunnlaugsson

  • Lið: ÍA, KR, FH, Valur
  • Staða: Miðjumaður/framherji
  • Fæðingarár: 1973
  • Íslandsmeistari: 1992, 1995, 1999, 2003, 2012
  • Bikarmeistari: 1999, 2007, 2010
  • Leikir: 153
  • Mörk: 31
  • Stoðsendingar: 24
  • Tvisvar sinnum í liði ársins
  • Silfurskór: 1999

Leitun er að skrítnari ferli en hjá Bjarka Gunnlaugssyni. Hann var hættur í fótbolta 29 ára, spilaði samtals 56 leiki í efstu deild á árunum 2004-11 en lék svo tuttugu af 22 deildarleikjum sumarið 2012, þá 39 ára. 

Samherjar Bjarka Gunnlaugssonar tolleruðu hann eftir síðasta leikinn á ferlinum, fyrir FH gegn Val í Kaplakrika haustið 2012.vísir/daníel

Á ýmsu gekk á ferli Bjarka og meiðsli settu gríðarlega stórt strik í reikning hans. En ferilinn fékk glæsilegan endi 2012. Eins og fram kom í sjónvarpsþáttunum A&B ákvað hann leggja allt í sölurnar fyrir eitt lokatímabil, æfði vel um veturinn og Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, kom svo með þá snilldarlausn að nota Bjarka aftastan á miðjunni. Bjarki var stórkostlegur sumarið 2012 þar sem FH-ingar urðu Íslandsmeistarar með miklum yfirburði. Líklega er þetta besta tímabil hjá jafn gömlum útileikmanni í efstu deild.

Bjarki gerði líka annað og meira. Hann varð Íslandsmeistari með ÍA 1992 og 1995 þótt að meira hafi borið á Arnari, tvíburabróður hans. Bjarki sneri svo heim 1999 eftir mislukkaða dvöl hjá Brann í Noregi og gekk í raðir KR. Þeir Sigursteinn Gíslason voru síðustu púslin sem vantaði til að gera KR loks að Íslandsmeistaraliði. Bjarki og Guðmundur Benediktsson náðu frábærlega saman í framlínunni og Bjarki skoraði ellefu mörk og var næstmarkahæstur í deildinni. Þá skoraði hann í bikarúrslitaleiknum gegn ÍA og kyssti KR-merkið, Skagamönnum til lítillar ánægju.

Svo er það innkoma Bjarka í lið ÍA sumarið 2002. Skagamenn urðu óvænt Íslandsmeistarar árið á undan en titilvörnin fór herfilega af stað. ÍA tapaði fyrstu þremur leikjum sínum og var aðeins með tvö stig af fimmtán mögulegum þegar kom að leik gegn Keflavík í 6. umferð. Þá hafði Bjarka tekið skóna af hillunni, var hent í byrjunarliðið og skoraði tvö mörk í 5-2 sigri. Bjarki lék bara sjö leiki með ÍA þetta sumar en bjargaði því sem bjargað varð. Hann skoraði sjö mörk og með Bjarka innanborðs fengu Skagamenn tólf af 23 stigum sínum.

19. Heimir Guðjónsson

  • Lið: KR, ÍA, FH
  • Staða: Miðjumaður
  • Fæðingarár: 1969
  • Íslandsmeistari: 2004, 2005
  • Bikarmeistari: 1994, 1995
  • Leikir: 250
  • Mörk: 21
  • Stoðsendingar: 26
  • Leikmaður ársins: 2004
  • Fimm sinnum í liði ársins

Eftir tímabilið 1999 var jafn lítil eftirspurn eftir Heimi Guðjónssyni og eftir proggrokki hjá pönkurum. En Logi Ólafsson, nýr þjálfari FH í næstefstu deild, sá sér leik á borði og samdi við Heimi sem var þá aðeins þrítugur. Það reyndust ein bestu og áhrifamestu félagaskipti í sögu íslenska boltans.

Heimir Guðjónsson tekur við Íslandsmeistarabikarnum 2005 úr höndum Björgólfs Guðmundssonar og Eggerts Magnússonar.jóhannes long

Með Heimi í broddi fylkingar hófst gullöld FH. Liðið vann næstefstu deild 2000 og komst í undanúrslit í bikarkeppninni. FH-ingar lentu í 3. sæti sem nýliðar 2001, áttu dapurt sumar 2002 en urðu svo í 2. sæti 2003. Fyrsti Íslandsmeistaratitilinn kom svo 2004 eftir sigur á KA á Akureyri í lokaumferðinni. FH-ingar voru komnir með blóð á tennurnar og unnu alls átta Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla fram til 2016. Heimir tók þátt í þeim öllum, fyrst sem fyrirliði, svo aðstoðarþjálfari og loks aðalþjálfari.

Ferill Heimis fram að FH-tímanum hafði ekki verið neitt slor. Hann lék lengi með uppeldisfélaginu KR; varð tvisvar sinnum bikarmeistari með því og lenti þrisvar sinnum í 2. sæti í deild. Heimir var sérstaklega góður sumarið 1996 þegar KR-ingar töpuðu fyrir Skagamönnum í frægum úrslitaleik á Akranesi.

En ferill Heimis staðnaði aðeins um aldamótin og hann fór í gegnum miðaldrakrísu fótboltamannsins. En sem betur fer fundu þau FH hvort annað á krossgötum og komust eftir það á beinu brautina. Heimir átti sex frábær ár sem leikmaður FH og var aldrei betri en sumarið 2004. Hann var þá framúrskarandi á miðjunni hjá FH-ingum og var valinn leikmaður ársins, 35 ára. Heimir lauk síðan ferlinum með öðrum titli 2005.

18. Hannes Þór Halldórsson

  • Lið: Fram, KR, Valur
  • Staða: Markvörður
  • Fæðingarár: 1984
  • Íslandsmeistari: 2011, 2013, 2020
  • Bikarmeistari: 2011, 2012
  • Leikir: 205
  • Haldið hreinu: 49
  • Stoðsendingar: 1
  • Leikmaður ársins: 2011
  • Fjórum sinnum í liði ársins

KR hefur annað hvort haft agalega eða frábæra markverði síðustu áratugina og það er nánast enginn millivegur. Lars Ivar Molskred fer í fyrri flokkinn. Norðmaðurinn svifaseini var afleitur í KR-markinu 2010. Liðið hafði verið frábært á undirbúningstímabilinu en fékk aðeins eitt stig í fyrstu tveimur leikjunum gegn nýliðum Hauka og Selfoss á heimavelli og Logi Ólafsson missti starfið sitt um mitt sumar. Við tók Rúnar Kristinsson. Hann gerði nokkrar breytingar á KR-liðinu en sú mikilvægasta var sennilega að skipta um markvörð.

Hannes Þór Halldórsson með Gary Martin í fanginu eftir að KR tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Val haustið 2013.vísir/vilhelm

Nýi maðurinn í markinu kom úr Fram, sjálfur Hannes Þór Halldórsson, okkar fremsti markvörður fyrr og síðar. Auðvelt er að setja hann í frábæra flokkinn af markvörðum KR. Á fyrsta tímabili Hannesar hjá KR vann liðið tvöfalt og hann var valinn leikmaður ársins. Hann var fyrsti markvörðurinn til að hljóta þá nafnbót síðan Bjarni Sigurðsson 1984, árið sem Hannes fæddist.

KR fékk á sig 31 mark í deildinni 2010 en sumarið eftir fékk liðið á sig 22 mörk. Hannes var framúrskarandi í marki KR-inga, vann stig fyrir þá og varði meðal annars tvær vítaspyrnur. Hann lék með KR í þrjú ár og vann fjóra stóra titla. KR-ingar urðu bikarmeistarar 2012 og Íslandsmeistarar með miklum yfirburðum 2013.

Eftir dvöl í atvinnumennsku sneri Hannes aftur heim 2019 og gekk í raðir Vals. Tímabilið 2019 var þrot á Hlíðarenda en 2020 voru Valsmenn bestir. Hannes lék alla átján deildarleiki Vals (covid, muniði), fékk aðeins sautján mörk á sig, hélt átta sinnum hreinu og vann sinn þriðja Íslandsmeistaratitil.

17. Allan Borgvardt

  • Lið: FH
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1980
  • Íslandsmeistari: 2004, 2005
  • Leikir: 43
  • Mörk: 29
  • Stoðsendingar: 10
  • Leikmaður ársins: 2003, 2005
  • Tvisvar sinnum í liði ársins
  • Silfurskór: 2005

Stundum skipta gæði meira máli en magn. Stundum snýst þetta ekki um hversu lengi þú staldrar við heldur hvernig þú nýtir tímann. Og Allan Borgvardt nýtti tímann sinn á Íslandi til hins ítrasta.

Gunnlaugur Jónsson átti líkt og aðrir varnarmenn efstu deildar á árunum 2003-05 fullt í fangi með að verjast Allan Borgvardt.jóhannes long

Borgvardt lék aðeins 43 leiki í efstu deild á Íslandi en gerði svo ótrúlega mikið í þessum leikjum. Hann skoraði 29 mörk, lagði upp tíu og var miðpunkturinn í sóknarleik FH á árunum 2003-05. Borgvardt var snillingur í að fá boltann í fætur og tengja við samherja sína, ótrúlega næmur á umhverfi sitt og svæðin sem voru í boðo-i, sterkur í loftinu og góður að klára færin sín.

Daninn drátthagi kom til Íslands fyrir tímabilið 2003 og lét strax til sín taka. Hann skoraði átta mörk í sextán deildarleikjum fyrir silfurlið FH og var valinn leikmaður ársins. Borgvardt spilaði aðeins tólf leiki 2004 en skoraði aftur átta mörk og FH-ingar urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn.

Sumarið 2005 var svo enn betra hjá FH eftir komu Auðuns Helgasonar og Tryggva Guðmundssonar. FH-ingar unnu fyrstu fimmtán leiki sína og urðu Íslandsmeistarar með miklum glans. Borgvardt skoraði þrettán mörk í fimmtán leikjum, auk fjögurra marka í þremur bikarleikjum, fékk silfurskóinn og var valinn besti leikmaður deildarinnar í annað sinn á þremur árum. Hann er aðeins annar tveggja sem hafa hlotið þessa nafnbót í tvígang og segir sitt um áhrifin sem hann hafði á þeim stutta tíma sem hann varði á skerinu.

16. Tommy Nielsen

  • Lið: FH
  • Staða: Miðvörður
  • Fæðingarár: 1972
  • Íslandsmeistari: 2004, 2005, 2006, 2008, 2009
  • Bikarmeistari: 2007, 2010
  • Leikir: 154
  • Mörk: 11
  • Stoðsendingar: 9
  • Fjórum sinnum í liði ársins

Það er varla hægt að tala um Borgvardt án þess að minnast á hinn Danann sem kom til FH frá AGF fyrir tímabilið 2003; miðvörðinn Tommy Nielsen. Tommy og Allan, Allan og Tommy. Þeir reyndust himnasending í Hafnarfjörðinn.

Tommy Nielsen fagnar eftir bikarúrslitaleikinn 2010 þar sem FH vann KR, 4-0.

Tommy var 31 árs þegar hann kom til Íslands en átti nóg eftir. Hann lék með FH í níu ár og á þeim tíma endaði liðið aldrei neðar en í 2. sæti. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari, fékk fern silfurverðlaun og varð tvisvar sinnum bikarmeistari með Fimleikafélaginu.

Tommy var skynsamur, fluglæs á leikinn og vel spilandi með sinn góða vinstri fót. Hann myndaði gott miðvarðapar með Sverri Garðarssyni 2003 og 2004 og enn betra par með Auðuni Helgasyni 2005. Þá fékk FH aðeins ellefu mörk á sig og hélt tíu sinnum hreinu. Sumarið 2006 fékk Tommy enn og aftur nýjan félaga í miðri vörn FH, Hornfirðinginn hávaxna, Ármann Smára Björnsson. Það breytti engu. Allir gátu spilað með Tommy og FH fékk aðeins fjórtán mörk á sig og hélt sjö sinnum hreinu.

FH varð að sjá á eftir titlinum í hendur Vals 2007 en varð bikarmeistari það sumar, svo Íslandsmeistari 2008 og 2009 og bikarmeistari aftur 2010. Tommy hafði þá unnið stóran titil með FH sjö ár í röð. Hann yfirgaf FH eftir tímabilið 2011 eftir fimm Íslandsmeistaratitla, tvo bikarmeistaratitla og skildi við félag sem hafði tekið risaskref fram á við frá því að hann kom fyrst. Hvað FH gæfi ekki fyrir leikmann eins og Tommy núna.


Tengdar fréttir

Þeir bestu: Fylgt úr hlaði

Vísir gerðist stórhuga og ákvað að setja saman lista yfir sextíu bestu leikmenn efstu deildar karla frá 1992. Listinn yfir þessa sextíu leikmenn birtist á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×