Íslenski boltinn

Þeir bestu (30.-26. sæti): Mark­vörður stóru augna­blikanna, varnargoð úr Eyjum og Vestur­bænum, Smalinn og lista­maðurinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 30-26.
Leikmennirnir sem enduðu í sætum 30-26. grafík/sara

Hér er farið yfir þá leikmenn sem enduðu í 30.-26. sæti í valinu á bestu leikmönnum í efstu deild karla í fótbolta frá 1992.

30. Ingvar Jónsson

  • Lið: Stjarnan, Víkingur
  • Staða: Markvörður
  • Fæðingarár: 1989
  • Íslandsmeistari: 2014, 2021, 2023
  • Bikarmeistari: 2021, 2022, 2023
  • Leikir: 167
  • Haldið hreinu: 42
  • Stoðsendingar: 1
  • Leikmaður ársins: 2014
  • Einu sinni í liði ársins

Ingvar Jónsson á tvær eftirminnilegustu markvörslur seinni tíma í íslenska boltanum. Rifjum þær aðeins upp.

Ingvar Jónsson með uppskeru tímabilsins 2021.vísir/hulda margrét

Enginn sem var á, eða horfði á, úrslitaleikinn um Íslandsmeistaratitilinn 2014 mun nokkru sinni gleyma honum. Ekki vantaði eftirminnileg atvikin; kolólöglegt fyrra mark Ólafs Karls Finsen, rauða spjaldið á Veigar Pál Gunnarsson, sigurmark Ólafs Karls úr vítaspyrnu og tryllingskast Kassims Doumbia. Svo er það varsla Ingvars frá Atla Guðnasyni í fyrri hálfleik. Hann sýndi þá ótrúleg viðbrögð og sló boltann yfir markið. Þetta var krúnudjásn Ingvars á frábæru tímabili 2014 þar sem hann var valinn leikmaður ársins.

Spólum fram til 2021. Næstsíðasta umferð. Meistaravellir. KR fær víti í uppbótartíma í stöðunni 1-2 fyrir Víking. Pálmi Rafn Pálmason fer á punktinn en Ingvar ver. Skömmu síðar er flautað til leiksloka. Víkingur er með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina og getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Leikni á heimavelli. Það raungerðist og Ingvar varð þar með Íslandsmeistari í annað sinn. Hann sat á bekknum framan af tímabili en átti eftirminnilega innkomu. Víkingar unnu síðustu sex leikina í deildinni sem hann spilaði og urðu einnig bikarmeistarar.

Suðurnesin hafa alið marga góða markverði og Ingvar er með þeim bestu sem hafa spilað í deildinni hér heima. Hann hefur haft afgerandi áhrif á það hvar stóru titlarnir hafa endað og þá er ótalin mögnuð framganga hans með Stjörnunni og Víkingi í Evrópukeppnum. Þar hefur Ingvar átt marga af sínum bestu leikjum.

29. Þormóður Egilsson

  • Lið: KR
  • Staða: Miðvörður
  • Fæðingarár: 1969
  • Íslandsmeistari: 1999, 2000, 2002
  • Bikarmeistari: 1994, 1995, 1999
  • Leikir: 239
  • Mörk: 7
  • Stoðsendingar: 8
  • Tvisvar sinnum í liði ársins

Sjaldan hefur verið jafn mikill þungi í bikarlyftingu og þegar KR-ingar veittu Íslandsmeistarabikarnum viðtöku haustið 1999. Enda var þetta fyrsti Íslandsmeistaratitill liðsins í 31 ár. Hnausþykk íshella var brotin. Þormóður Egilsson, fyrirliði KR, veitti bikarnum viðtöku; sameiningartáknið sjálft.

Þormóður Egilsson í baráttu við Daniel Amokachi í frægum Evrópuleik KR og Everton á Laugardalsvelli haustið 1995.getty/Mike Hewitt

Þormóður er hluti af hinum goðsagnakennda 1969-árgangi úr KR. Og hann var sá eini af þeim fjórum fræknu úr þeim árgangi sem var enn í KR þegar liðið varð Íslandsmeistari . Rúnar Kristinsson var í atvinnumennsku, Heimir Guðjónsson í ÍA og Hilmar Björnsson í Fram. Eftir stóð Móði og uppskar loks laun erfiðis síns.

Ekki vantaði sár augnablik framan af ferlinum. Sumarið 1990 tapaði KR Íslandsmeistaratitlinum á markatölu og bikarúrslitunum í vítaspyrnukeppni í endurteknum leik og KR-ingar töpuðu svo úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn 1996 og 1998. En KR vann bikarkeppnina 1994 og 1995 og Íslandsmeistaratitilinn kom svo loksins í hús 1999. Þormóður var einnig fyrirliði KR þegar liðið varð Íslandsmeistari 2000 og 2002. Eftir það fóru skórnir á hilluna.

Á árunum 1992-2002 spilaði Þormóður átta sinnum alla átján deildarleikina og KR fékk sex sinnum á sig eitt mark eða minna að meðaltali í leik á þessum árum. Það var ekki síst vasklegri framgöngu Þormóðar í vörn KR að þakka.

28. Hlynur Stefánsson

  • Lið: ÍBV
  • Staða: Miðvörður
  • Fæðingarár: 1964
  • Íslandsmeistari: 1997, 1998
  • Bikarmeistari: 1998
  • Leikir: 171
  • Mörk: 21
  • Stoðsendingar: 8
  • Leikmaður ársins: 2000
  • Fimm sinnum í liði ársins

Fyrir tímabilið 1997 færði Bjarni Jóhannsson Hlyn Stefánsson, þá 33 ára, í stöðu miðvarðar eftir að hann hafði spilað framar á vellinum fram að því. Og gert vel. Hlynur var atvinnumaður í Svíþjóð og spilaði 25 landsleiki.

Hlynur Stefánsson var leiðtoginn í vörn ÍBV um árabil.ljósmyndasafn vestmannaeyja

En 1997 hófst nýr og glæsilegur kafli á ferli Hlyns. Árin 1997-2001 eru ein þau bestu hjá miðverði í sögu efstu deildar. Á þessum árum varð ÍBV tvisvar sinnum Íslandsmeistari, einu sinni bikarmeistari, lenti tvisvar sinnum í 2. sæti í deild og einu sinni í bikar.

Eyjavörnin, með Hlyn í broddi fylkingar, fékk aldrei á sig meira en sautján mörk í deildinni á þessum tíma. Og í þeim 87 deildarleikjum sem hann lék 1997-2001 fékk ÍBV aðeins á sig 74 mörk og hélt 39 sinnum hreinu. Hlynur skoraði auk þess átta mörk. Sjö þeirra komu í sigurleikjum.

Af þessum fimm tímabilum sem hér ræðir var 2000 líklega það sísta hjá ÍBV. En Hlynur var áfram frábær í Eyjavörninni og var valinn leikmaður ársins. Hann er sá elsti sem hefur fengið þessa viðurkenningu en hann hefði svo sannarlega getað fengið hana fyrr og oftar.

27. Baldur Sigurðsson

  • Lið: Keflavík, KR, Stjarnan, FH
  • Staða: Miðjumaður
  • Fæðingarár: 1985
  • Íslandsmeistari: 2011, 2013
  • Bikarmeistari: 2006, 2011, 2012, 2014, 2018
  • Leikir: 264
  • Mörk: 55
  • Stoðsendingar: 34
  • Þrisvar sinnum í liði ársins

Við Íslendingar erum ekkert sérstaklega góðir að finna viðurnefni á íþróttafólkið okkar. Við eigum þó nokkur góð og Smalinn er eitt þeirra. Því var snemma skellt á Mývetninginn Baldur Sigurðsson og fylgdi honum í gegnum ferilinn.

Baldur Sigurðsson vann stóra titla með þremur félögum; Keflavík, KR og Stjörnunni.vísir/daníel

Baldur sló fyrst í gegn með Keflavík og varð bikarmeistari með liðinu 2006. Hann fór svo til KR þar sem hann átti sín bestu ár á ferlinum og vann fimm stóra titla. Baldur myndaði frábæra miðju með Bjarna Guðjónssyni og Viktori Bjarka Arnarssyni 2011 og tveimur árum síðar átti hann sennilega sitt besta tímabil þegar KR-ingar unnu Íslandsmeistaratitilinn með miklum yfirburðum. Baldur skoraði átta mörk í tuttugu deildarleikjum og hefði hæglega getað verið valinn leikmaður ársins.

Eftir dvöl í atvinnumennsku átti Baldur svo fjögur fín ár með Stjörnunni og varð bikarmeistari með liðinu 2018. Það var hans fimmti bikarmeistaratitil og ef það væri verið að velja bestu leikmenn bikarkeppninnar væri hann meðal efstu manna á blaði þar. Baldur skoraði í bikarúrslitaleiknum 2006, 2011 (fimm sláarskota-leiknum fræga) og sigurmarkið í úrslitaleiknum 2012.

Upp á sitt besta var Baldur alhliða miðjumaður, hraustur með mikla hlaupagetu, öflugur á báðum endum og frábær að skila sér inn í vítateig andstæðinganna og naskur á að koma sér í færi. Mörkin í 264 leikjum leikjum í efstu deild urðu 55 mörk sem er afar góð tölfræði fyrir miðjumann.

25. Veigar Páll Gunnarsson

  • Lið: Stjarnan, KR, Víkingur, FH
  • Staða: Framherji
  • Fæðingarár: 1980
  • Íslandsmeistari: 2002, 2003, 2014
  • Leikir: 135
  • Mörk: 33
  • Stoðsendingar: 31
  • Þrisvar sinnum í liði ársins

Sorrí KR-ingar, en Íslandsmeistaraliðin 2002 og 2003 eru ekki þau eftirminnilegustu í sögunni. Og heldur ekki þau skemmtilegustu. En þau höfðu Veigar Pál Gunnarsson innanborðs.

Veigar Páll Gunnarsson fagnar marki draumasumarið 2014 í Garðabænum.vísir/andri marinó

Hann var listamaðurinn í þessum tveimur meistaraliðunum og þeirra besti maður. Veigar Páll var með gríðarlega góða tækni, mikinn leikskilning og iðinn við að koma sér í stöður til að skora eða finna samherja sína í góðum færum. Hann skoraði sjö deildarmörk bæði tímabilin sín í KR og var sérstaklega mikilvægur 2003.

Veigar Páll spilaði þá þrettán af átján deildarleikjum Vesturbæjarliðsins og í þeim fékk það 91 prósent stiga sinna. KR vann níu leiki þetta sumar og Veigar Páll skoraði eða lagði upp sigurmark í fimm þeirra, skoraði tvö mörk í þeim sjötta og lagði upp þrjú mörk í sjöunda leiknum. Veigar Páll var alls með sex mörk og sjö stoðsendingar í umræddum níu sigurleikjum KR auk þess að eitt mark til viðbótar var skorað þegar fylgt var eftir skoti hans.

Veigar Páll sneri aftur heim í Stjörnuna 2013. Það sumar köstuðu Garðbæingar frá sér bikarmeistaratitlinum en tímabilinu 2014 gleymir enginn stuðningsmaður Stjörnunnar. Liðið fór lengra í Evrópukeppni en nokkurt íslenskt lið hafði áður gert og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn, og það án þess að tapa leik. Þótt flestir muni kannski eftir rauða spjaldinu í úrslitaleiknum gegn FH átti Veigar Páll mjög gott tímabil, hvort sem það sem fremsti maður eða fyrir aftan dönsku framherjana Jeppe Hansen eða Rolf Toft. Næstu árin fór tækifærum Veigars Páls með Stjörnunni fækkandi og hann endaði ferilinn með Víkingi og FH. En þegar hann var uppi á sitt besta stóðust honum fáir snúning.


Tengdar fréttir

Þeir bestu: Fylgt úr hlaði

Vísir gerðist stórhuga og ákvað að setja saman lista yfir sextíu bestu leikmenn efstu deildar karla frá 1992. Listinn yfir þessa sextíu leikmenn birtist á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×