Innlent

Vísar því á bug að HSÍ fái ekkert fyrir sinn snúð

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Einar Logi Vignisson er auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins.
Einar Logi Vignisson er auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins. Vísir/Samsett

Auglýsingastjóri RÚV segir það af og frá að ríkisútvarpið stórgræði á auglýsingasölu á leikjum íslenska handboltalandsliðsins á Evrópumótinu. Auknar auglýsingatekjur vegna góðs gengis strákanna okkar nemi ekki nema fáeinum prósentum á milli móta og hluti teknanna skili sér sömuleiðis til Handknattleikssambandsins.

Einar Logi Vignisson hefur farið fyrir auglýsingadeild RÚV um árabil. Fréttastofa hafði samband við hann vegna gagnrýni á auglýsingasölu ríkisútvarpsins á meðan Evrópumótinu stendur sem gætt hefur víða á samfélagsmiðlum.

Á Facebook og TikTok hefur ríkismiðillinn verið vændur um að hala inn tekjum á meðan HSÍ situr fjársvelt eftir. Þetta segir Einar Logi ekki standast skoðun.

Auglýsingar skili milljónum til HSÍ

Sýningarréttinn kaupi ríkisútvarpið af Evrópska handknattleikssambandinu á háar fjárhæðir og umgjörðin í kringum mótið kosti sömuleiðis sitt. Verð á auglýsingaplássi fyrir leik og í hálfleik sé fyrst og fremst hugsað til að standa undir kostnaði.

Þá selji RÚV einnig svokallaðar handboltakveðjur og hluti teknanna af þeim fer til Handknattleikssambandsins. Kveðjurnar skila nokkrum milljónum á hverju móti í kassa HSÍ, að sögn Einars Loga.

Hann segir það sömuleiðis algengan misskilning að plássið verði dýrara eftir árangri landsliðsins. Sekúndan kosti það sama á úrslitaleiknum og öllum öðrum leikjum, meira að segja ef við leggjum Dani í kvöld.

Gengi liðsins skipti þannig ekki miklu hvað auglýsingatekjurnar varðar. Til að mynda segir hann tekjurnar þennan janúar aðeins fáeinum prósentum meiri en á síðasta stórmóti.

„Það er horft sama hvernig gengur. Það er það fallega við þetta. Íslendingar halda með sínum mönnum í blíðu og stríðu.“

Áhorf stöðugt hvernig sem gengur

Hann bendir einnig á að það sé ólíku saman jafnað beri maður saman Evrópumót í knattspyrnu og handbolta. Á stórmótum í handbolta séu það aðeins leikir Íslands sem laði að þennan fjölda áhorfenda en á Evrópumótum í knattspyrnu sé áhorfið talsvert jafnara leikja á milli.

„Ég fagna því að fólk vilji styðja við handbolta á Íslandi. Það er frábært að fólk vilji styrkja HSÍ og um að gera að vekja athygli á bágri fjárhagsstöðu Handknattleikssambandsins,“ segir Einar Logi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×