Skoðun

Að grípa fólk í tíma – for­varnir sem virka á vinnu­markaði

Guðrún Rakel Eiríksdóttir skrifar

Mörg okkar þekkja þá tilfinningu að eiga orðið erfiðara en áður með að ráða við vinnuna. Verkefni sem reyndust nokkuð auðveld eru farin að krefjast meiri orku og fyrirhafnar. Líðan, einbeiting eða líkamleg geta hefur mögulega hrakað smám saman. Oft eru þetta ekki skyndileg veikindi heldur hægfara ferli sem þróast yfir lengri tíma. Spurningin er ekki endilega hvort slíkt geti gerst, heldur hvort brugðist sé við í tíma.

Erlendar rannsóknir eru samhljóma um mikilvægi forvarna þegar kemur að heilsu og þátttöku fólks á vinnumarkaði. Snemmtæk íhlutun getur komið í veg fyrir langvarandi veikindi, dregið úr líkum á brotthvarfi af vinnumarkaði og skilað verulegum samfélagslegum og fjárhagslegum ávinningi. Þrátt fyrir þessa þekkingu er algengt að ekki sé brugðist við ástandinu fyrr en einstaklingar eru orðnir óvinnufærir.

Margir vinnustaðir bjóða upp á stuðning fyrir starfsfólk sem upplifir vanlíðan eða aukna erfiðleika í starfi, og mikilvægt er að nýta þann stuðning þegar hann er til staðar. Í sumum tilvikum nægir það ekki og þörf er á frekari aðstoð við að halda fólki í starfi og styðja við aukna vinnugetu. Í slíkum aðstæðum teljum við að reynsla og þekking sem skapast hefur innan VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs geti nýst með jákvæðum hætti.

Forvarnaþjónusta VIRK

Í byrjun síðasta árs hóf VIRK að bjóða upp á nýja þjónustuleið í forvarnaskyni fyrir einstaklinga á vinnumarkaði sem finna fyrir auknum erfiðleikum í starfi og minni vinnugetu. Þetta getur verið fólk sem glímir við andlegt eða líkamlegt álag, kulnunareinkenni, stoðkerfisverki, streitu eða annan heilsutengdan vanda sem hefur áhrif á vinnugetu – án þess að vera komið á þann stað að veikindaleyfi sé nauðsynlegt eða hefðbundin starfsendurhæfing eigi við.

Ein mikilvægasta nýjungin í þessari þjónustu er aðgengið. Einstaklingar geta sjálfir leitað til VIRK í gegnum heimasíðuna velvirk.is, án þess að þurfa að fara í gegnum heilbrigðiskerfið eða fá tilvísun. Þetta einfaldar ferlið, dregur úr bið og gerir fólki kleift að sækja sér stuðning þegar fyrstu merki um erfiðleika koma fram – ekki mánuðum eða árum síðar.

Einstaklingsbundin nálgun

Forvarnaþjónustan byggir á heildrænni og einstaklingsbundinni nálgun. Engin tvö mál eru eins og þjónustan er því alltaf sniðin að aðstæðum og þeim vanda sem hver og einn glímir við. Unnið er með stöðu einstaklingsins út frá vinnuaðstæðum, heilsu, líðan og jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Valin eru markviss og viðeigandi úrræði sem styðja við einstaklinginn án þess að íþyngja eða raska atvinnuþátttöku. Lögð er áhersla á að úrræðin falli að vinnu og daglegu lífi. Þegar við á er ekki síður mikilvægt að vinna málin í góðri samvinnu við vinnustaðinn enda skiptir vinnuumhverfið miklu máli.

Þjónustan er að jafnaði tímabundin og stendur yfir í styttri tíma en almennt gengur og gerist í starfsendurhæfingu. Úrræðin eru jafnframt léttvægari þar sem ekki er um að ræða skilgreindan heilsubrest heldur snemmtækan stuðning sem miðar að því að styrkja bjargráð, draga úr álagi og fyrirbyggja frekara heilsutengt bakslag.

Þessi nýja þjónustuleið hjá VIRK hefur nú verið í gangi í um ár og að hluta til sem þróunar- og tilraunaverkefni. Niðurstöðurnar hafa verið afar jákvæðar. Þeir einstaklingar sem farið hafa í gegnum þjónustuna lýsa aukinni vinnugetu, bættri líðan og meiri virkni – bæði í starfi og daglegu lífi. Oft hefur þessi snemmtæki stuðningur skipt sköpum!

Forvarnir snúast í grunninn um að grípa fólk áður en það dettur út. Að bjóða stuðning áður en vandinn verður of umfangsmikill. Með þessari þjónustu viljum við leggja okkar af mörkum til þess að fleiri geti haldið áfram að vera virkir á vinnumarkaði við sem bestu aðstæður. Fyrir þá sem vilja kynna sér málið nánar má finna frekari upplýsingar á velvirk.is.

Höfundur er sviðsstjóri forvarna hjá VIRK.




Skoðun

Sjá meira


×