Innlent

Borgar­full­trúi fer ekki aftur fram og hættir í Pírötum

Lovísa Arnardóttir skrifar
Magnús Davíð starfaði sem lögmaður áður en hann fór í borgarstjórn.
Magnús Davíð starfaði sem lögmaður áður en hann fór í borgarstjórn. Vísir/Sigurjón

Magnús Davíð Norðdahl borgarfulltrúi Pírata sækist ekki eftir sæti á framboðslista Pírata í sveitarstjórnarkosningunum í maí. Við lok kjörtímabils ætlar hann að segja skilið við þátttöku í skipulögðu stjórnmálastarfi og þar með einnig samtökum Pírata. Þetta tilkynnti Magnús á Facebook-síðu sinni í dag.

Magnús var einn þriggja frambjóðenda Pírata sem náði kjöri til borgarstjórnar í borgarstjórnarkosningunum vorið 2022. Hann hefur meðal annars setið í velferðarráði, stjórn Félagsbústaða, forsætisnefnd og mannréttindaráði borgarinnar.

„Síðustu ár í borgarstjórn Reykjavíkur hafa verið viðburðarík og lærdómsrík, bæði faglega og ekki síður persónulega. Það verður seint vanmetið hversu mikilvægt er að eiga fulltrúa í borgarstjórn sem búa yfir mikilli reynslu og því dáist ég að því fólki sem starfar á sviði stjórnmálanna í fleiri en eitt kjörtímabil og jafnvel í áratugi,“ segir Magnús í tilkynningunni. 

Magnús fór í veikindaleyfi síðasta vor en sneri aftur til starfa í desember. Hann bauð einnig fram fyrir Pírata í Alþingiskosningum árið 2021. Hann skipaði þá fyrsta sæti flokksins í Norðvesturkjördæmi. Hann fór fram á endurtalningu í kjördæminu og kærði niðurstöðu kosninganna til kjörbréfanefndar og krafðist uppkosningar. Málið fór síðar til Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Borgin ekki starfandi án starfsfólks

Magnús þakkar samstarfsfólki sínu í tilkynningunni í dag fyrir samstarfið. 

„Ég þakka félögum í núverandi og fyrrverandi meirihluta kærlega fyrir samstarfið á kjörtímabilinu og eins borgarfulltrúum úr minnihluta. Vonandi að sem flest þeirra haldi áfram þannig að mikilvæg reynsla komi að góðum notum á næsta kjörtímabili og um ókomin ár. Þá þakka ég einnig öllu því frábæra starfsfólki borgarinnar sem ég hef kynnst fyrir gott samstarf, án þeirra væri borgin ekki starfandi,“ segir hann.

Baráttan fyrir mannréttindum mikilvæg

Hann segist enn fremur binda vonir við það að stjórnmál á Íslandi þróist ekki „með þeim voveiflega hætti sem sjá má víða erlendis í formi uppgangs fasískra og andlýðræðislegra afla.“ Baráttan fyrir mannréttindum og frelsi sé mikilvægari en hún hafi verið allt frá því á fjórða áratug

„Í því samhengi skiptir máli að eldri stjórnmálahreyfingar hér á landi gæti vel að því að velja ekki lýðskrumara til forystu í sínum röðum. Að sama skapi þurfa rótgrónar stjórnmálahreyfingar að gæta mjög vel að því við myndun meirihluta að hafna samstarfi við hvern þann stjórnmálamann eða stjórnmálaflokk sem byggir að einhverju leyti á hugmyndafræði haturs, fordóma og fasisma eða hafa tileinkað sér trumpíska aðferðafræði í einhverjum mæli. Við vissar aðstæður þurfa fyrrum pólitískir andstæðingar að geta grafið stríðsöxina og unnið saman til þess að koma í veg fyrir að fasísk og andlýðræðisleg öfl verði hafin til valda við myndun meirihluta,“ segir Magnús í færslu sinni.

Hann segir í lokin að þrátt fyrir fyrirhugað brotthvarf úr stjórnmálum við lok þessa kjörtímabils muni hann halda áfram að fylgjast með og styðja flokka sem á hverjum tíma kenna sig við mannréttindi, frelsi og lýðræði.


Tengdar fréttir

Einar og Magnús Davíð hlutskarpastir í prófkjöri Pírata

Einar Brynjólfsson mun leiða lista Pírata í Norðausturkjördæmi og Magnús Davíð Norðdal mun leiða lista flokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum en prófkjöri flokksins í kjördæmunum tveimur lauk síðdegis í dag.

„Við þurfum að fá einhver viðbrögð“

Guðmundur Gunnarsson og Magnús D. Norðdahl, sem kvörtuðu til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna talningamálsins svokallaða kalla eftir viðbrögðum valdhafa sem þeir segja að þurfi að gera málið upp við samvisku sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×