Sport

„Mark­vörðurinn þarf stundum að kveikja í vörninni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson fékk á sig fimmtán mörk með langskotum og varði ekki mörg á móti.
Viktor Gísli Hallgrímsson fékk á sig fimmtán mörk með langskotum og varði ekki mörg á móti. Vísir/Vilhelm

Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik á móti Ungverjum en langskyttur Króata skutu hann síðan í kaf í næsta leik á eftir. Ásgeir Örn Hallgrímsson og Jóhann Gunnar Einarsson ræddu leik Króatíu og Íslands við Ágúst Orra Arnarson í Besta sætinu og fóru þar á meðal yfir markvörslu Íslands.

„Viktor klukkaði svona níu til tíu bolta í leiknum og var með eitthvað svona rétt undir þrjátíu prósent markvörslu. Við viljum sjá hann taka eitthvað af þessum skotum fyrir utan,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson en Króatar skoruðu fimmtán mörk með langskotum.

„Þó svo að þeir hafi verið að skjóta geðveikt mikið fyrir utan þá vorum við samt alveg mjög agressívir í vörninni. Við vorum oft með báða þistana okkar bara alveg komna yfir níu metrana. Einar Þorsteinn og einhverjir fleiri voru oft bara komnir lengst fyrir utan punktalínu, að reyna að taka við þessum árásum,“ sagði Ásgeir.

Hefðum viljað að hann tæki meira af þessum boltum

„Málið er bara að svo komu þessar hreyfingar og komu þessar klippingar og þá féllum við svo langt, langt aftur. Þegar þessi örvhenti er að skjóta kannski af tíu til ellefu metrum og oft eru þetta pressuskot með blokk. Eins frábær og Viktor Gísli er þá hefðum við viljað að hann tæki meira af þessum boltum,“ sagði Ásgeir.

„Það vantaði bara þessa kafla sem gera markvörslur svo mikilvægar, að verja nokkra bolta í röð til þess að liðið fengi þá annaðhvort tækifæri til að saxa af forskotinu eða komast yfir,“ sagði Jóhann Gunnar Einarsson.

Svo virkar þetta líka alveg öfugt

„Gefa sjálfstraust inn í vörnina, því það er oft talað um þetta týpíska að vörn og markvarsla haldist í hendur, að þú þurfir að spila góða vörn til að fá góða markvörslu, en svo virkar þetta líka alveg öfugt. Markvörðurinn þarf stundum að kveikja í vörninni, gefa henni sjálfstraust hérna, að markvörðurinn geti líka tekið bolta þegar vörnin klikkar,“ sagði Jóhann.

Nákvæmlega það sem gerðist hjá Dönum

„Sem er nákvæmlega það sem gerðist hjá Dönum í leiknum á móti Frökkum. Emil Nielsen var bara svona la la í danska markinu en hann ver síðan þrjá bolta af fjórum síðustu tíu mínúturnar. Þeir ná yfirhöndinni í leiknum og þá eru þeir bara komnir með þetta,“ skaut Ásgeir inn í.

„Þetta er það sem held ég að þú sért að lýsa, þetta móment sem okkur vantaði. Maður hélt að þetta væri aðeins að koma þarna þegar það voru svona tólf mínútur eftir af leiknum en þá vantaði svona að fylgja þessu eftir,“ sagði Ásgeir.

Það má finna alla umræðuna um Króatíuleikinn í Besta sætinu með því að hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×