Sport

Kenna rafveitustöð um meiðslamartröð liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
George Kittle, einn besti innherji NFL-deildarinnar, var síðasta stórstjarna San Francisco 49ers sem var keyrður af velli á hnjaskvagninum en hann sleit hásin í leik.
George Kittle, einn besti innherji NFL-deildarinnar, var síðasta stórstjarna San Francisco 49ers sem var keyrður af velli á hnjaskvagninum en hann sleit hásin í leik. Getty/Mitchell Leff

Eftir enn eitt tímabil sem einkenndist af endalausum meiðslum ætlar NFL-félagið San Francisco 49ers að rannsaka alla möguleika til að komast að því hvers vegna meiðslin halda áfram að hrannast innan liðsins upp ár eftir ár.

Það felur meðal annars í sér rannsókn á samsæriskenningu sem hefur farið víða á netinu um að rafveitustöðin nálægt æfingasvæði þeirra og Levi's-leikvanginum eigi þátt í þessum meiðslum. Þetta staðfesti framkvæmdastjórinn John Lynch.

„Þar sem þetta snýst um heilsu og öryggi leikmanna okkar, þá held ég að maður verði að skoða allt,“ sagði John Lynch.

„Við höfum verið að hafa samband við hvern sem er til að sjá hvort það sé til einhver rannsókn önnur en gaur sem stingur tæki undir girðingu og fær út tölu sem ég hef ekki hugmynd um hvað þýðir,“ sagði Lynch.

Það sem byrjaði sem kenning hefur síðan farið á flug og kveikt umræður á samfélagsmiðlum um öryggi leikmanna 49ers og þeirra liða sem heimsækja Levi's-leikvanginn til að spila útileiki. 

Levi's-leikvangurinn verður einmitt vettvangur Super Bowl LX þann 8. febrúar næstkomandi sem ýtir enn frekar undir áhuga á þessum samsæriskenningum.

Samsæriskenningin

Kenningin, sem enn á eftir að sanna vísindalega, er sú að of mikil útsetning fyrir rafsegulsviði geti valdið líkamanum skaða. „Lágtíðni rafsegulsvið geta brotið niður kollagen, veikt sinar og valdið skemmdum á mjúkvef við mörk sem eftirlitsaðilar kalla „örugg“,“ birti X-notandinn Peter Cowan þann 6. janúar í færslu sem síðan þá hefur fengið 22 milljónir áhorfa, 5.900 endurbirtingar og 35.000 „like“.

Kenningin er komin inn í klefann

Kenningin sem hefur því verið á kreiki á netinu og hefur ratað inn í búningsklefa 49ers – útherjinn Kendrick Bourne vísaði til hennar eftir að innherjinn George Kittle sleit hægri hásin í úrslitakeppnisleiknum gegn Philadelphia – gefur í skyn að langur meiðslalisti Niners undanfarinn áratug eða svo megi að hluta til rekja til of mikillar útsetningar fyrir rafsegulkrafti.

49ers hafa æft í Santa Clara síðan seint á níunda áratugnum og rafveitustöðin kom nokkrum árum síðar. Stöðin, sem er rekin af Silicon Valley Power, var stækkuð árið 2014 í tengslum við opnun Levi's-leikvangsins.

Samsæriskenningin hefur samt verið afsönnuð af ýmsum vísindamönnum og heilbrigðisstarfsfólki. Frank de Vocht, prófessor í faraldsfræði og lýðheilsu við Bristol Medical School í Englandi, er talinn fremsti sérfræðingur í áhrifum rafsegulkrafts á menn og sagði við The Washington Post að kenningin væri „bull“.

Meiðslavandamál 49ers

Engu að síður eru meiðslavandamál 49ers undanfarinn áratug eða svo nógu mikil til að ekkert sé útilokað. Á þessu tímabili missti San Francisco þrjá af sínum bestu leikmönnum – varnarendann Nick Bosa (slitið krossband), línuvörðinn Fred Warner (brotinn ökkli) og Kittle (hásin) – vegna meiðsla sem bundu enda á tímabilið. Fyrsta val þeirra í nýliðavalinu, Mykel Williams (slitið krossband), missti einnig úr stóran hluta tímabilsins.

Leikstjórnandinn Brock Purdy (tognun í tá), útherjarnir Ricky Pearsall (tognun í hné og ökkla) og Jauan Jennings (rifbein, öxl og ökkli) og línuvörðurinn Tatum Bethune (nári) voru líka lengi frá.

Samkvæmt OverTheCap voru tuttugu leikmenn 49ers á varamannalista á þessu tímabili, sem samsvarar meira en 95 milljónum dala í leiðréttu ársvirði samninga þeirra, hæstu upphæðina í deildinni með næstum tuttugu milljóna dala mun á næsta lið, Arizona.

Þetta kemur í kjölfar 2024-tímabilsins þar sem Niners leiddu deildina í töpuðum leikjum vegna meiðsla (141,2), tala sem metur áhrif meiðsla á lið. Þeir leiddu einnig deildina í þeim flokki árið 2020 (COVID-19 ekki meðtalið).

„Við erum alltaf að skoða þróun, gögn, allt sem við gerum,“ sagði Lynch. „Heilsa og frammistaða leikmanna okkar er í forgangi á hverju einasta ári. Í ár var þetta erfitt og það tók sinn toll af liðinu okkar, og við munum halda áfram að skoða þetta. Við höfum lagt mikinn tíma og fyrirhöfn í að ráða virkilega hæft fólk og ég held að með því að vera í fararbroddi í meiðslaforvörnum og ég held að í ár, líklega vegna þess að stjörnuleikmennirnir meiddust, hafi því verið veitt mikil athygli,“ sagði Lynch.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×