Viðskipti innlent

Rúmur helmingur í­búða til sölu ný­byggingar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Helmingur allra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru nýbyggingar.
Helmingur allra íbúða á höfuðborgarsvæðinu eru nýbyggingar. Vísir/Anton Brink

Rúmur helmingur allra íbúða á höfuðborgarsvæðinu á sölu eru í nýbyggingu og hefur hlutur nýrra íbúða í framboði ekki mælst meiri á höfuðborgarsvæðinu í átta ár.

Í byrjun janúar voru 5105 íbúðir til sölu á öllu landinu, þar af 2234 nýjar. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall nýrra íbúða 51 prósent samkvæmt mánaðarskýrslu HMS. Þetta er í fyrsta skipti sem hlutfallið fer yfir fimmtíu prósent.

Hlutfall nýrra íbúða er heldur lægra fyrir utan höfuðborgarsvæðið og mældist um sautján prósent í byrjun janúar.

„Hátt hlutfall nýrra íbúða til sölu endurspeglar mikla íbúðauppbyggingu undanfarin ár, á sama tíma og sala nýbygginga hefur dregist saman. Í kjölfarið sitja nýjar íbúðir lengur á markaðnum og safnast upp, á meðan aðrar íbúðir seljast að jafnaði hraðar og hverfa fyrr af markaðinum,“ segir í skýrslunni.

Lengsti birgðatíminn á Álftanesi

Birgðatími, fjöldi mánaða sem tekur að selja núverandi framboð, hefur aldrei mælst lengri á höfuðborgarsvæðinu eða í nágrenni þess. Lengsti biðtíminn er á nýbyggingarsvæðinu á Álftanesi og á nýbyggingarsvæðinu á Völlunum í Hafnarfirði.

Stysti biðtíminn er í póstnúmerunum 103, 107 og 109 en þar eru svo til engar íbúðir í nýbyggingum til sölu. 

„Birgðatíminn er einnig nokkuð stuttur á Seltjarnarnesi (170), í Árbæ (110), Grafarvogi (112) og Grafarholti (113) þar sem hlutfall nýbygginga af framboði er á bilinu 10% til 41%.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×