Skoðun

Afburðakonuna Steinunni Gyðu í 2. sætið!

Dagbjört Hákonardóttir skrifar

Reykjavík er borgin mín. Ég er þakklát fyrir að búa þar og fá að vinna að hagsmunum íbúa sem þingmaðurinn þeirra. Borgin okkar er eftirsóttur staður að búa á, ekki síst vegna þess að henni hefur að mestu leyti verið stýrt af félagshyggjuöflum frá því Reykjavíkurlistinn tók við stjórn hennar árið 1994. Ég er samt líka þeirrar skoðunar að við þurfum að veita nýjum röddum Samfylkingarinnar brautargengi í borginni fyrir næstu borgarstjórnarkosningar, enda þurfa áherslur jafnaðarfólks að skína betur í gegn í borginni okkar.

Hver er Steinunn?

Samfylkingarfólki í Reykjavík stendur til boða að velja yfirburðarmanneskju í 2. sætið í flokksvalinu sem fer fram á morgun, 24. janúar. Ég hef þekkt Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttir síðan við vorum saman í Menntaskólanum í Hamrahlíð upp úr síðustu aldamótum. Undanfarin misseri höfum við unnið saman í Samfylkingunni enda er Steinunn hvalreki fyrir okkur jafnaðarfólk á Íslandi. Hún hefur nýtt þekkingu sína og reynslu í þágu þolenda ofbeldis sem talskona Stígamóta til margra ára sem samskiptaráðgjafi hjá Aton, og nú vonandi í borgarstjórn.

Hvað þarf góð borg?

Áður en ég settist á þing haustið 2023 hafði ég verið lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg í tæpan áratug. Ég kynntist þar hverjum krók og kima – tók við kvörtunum og erindum, gerði úttektir á starfseminni og kortlagði verkefni hennar. Ég hef innsýn inn í réttmætar áhyggjur íbúa borgarinnar og samflokksfólks okkar af þvi að borgin verður að skerpa á pólitískri ábyrgð sinni og forgangsraða rétt. Út frá því tel ég mig geta fullyrt að Steinunn sé þeim kostum gædd sem Samfylkinguna bráðvantar í sína forystu í borginni og hvað þarf til að koma sér inn í óteljandi verkefni sem ein borg þarf að takast á við – hvort sem það er félagsmiðstöð, áhaldahús eða sundlaugar. Steinunn mun massa þetta allt.

Það er hægt að leysa leikskólavandann

Steinunn hefur ekki síst lagt mikla áherslu á leikskólamálin. Þegar Reykjavíkurlistinn boðaði að leikskólapláss skyldu standa öllum börnum í Reykjavík til boða, hafði enginn trú á því að það væri gerlegt. Lesendabréf blaðanna fylltust af dómsdagsspám um það glapræði sem fælist í því að borga konum fyrir að passa annarra kvenna börn. Íslendingar hafa hins vegar valið leikskólann, þeir standa með honum og við vitum hvers virði hann er. Við Steinunn erum sammála því að sýn Reykjavíkurlistans var rétt, og það verði að leysa leikskólavandann í eitt skipti fyrir öll. Það er metnaðarfullt en raunhæft markmið. Á sama tíma hafnar hún því að horfa fram hjá þörfum starfsfólksins sem oft verður útundan í umræðunni. En forgangsröðunin er skýr – vandi skólastigsins verður ekki fluttur yfir á foreldra af hálfu jafnaðarmanna í borginni. Vandann þurfum við að leysa saman.

Dýpkum ekki á vandanum

Við Steinunn erum sammála um að á tímum skautunar í samfélagi sem er að breytast á ógnarhraða, er ekki nóg að afgreiða ótta fólks gegn því óþekkta sem mannvonsku og að það eigi ekki að hlusta á fólk. Tími samtalsins við fólk úr ólíkum áttum í lýðræðislegri umræðu má aldrei líða undir lok. Við getum svo miklu betur en það. Það er nefnilega ekki nóg að stjórnmálamaður hafi góðar skoðanir og rétta sýn. Það þarf elju og drifkraft – og yfirburðasamskiptahæfileika. Ég veit um fáa sem búa yfir þessu öllu, en það hefur Steinunn. Þess vegna hvatti ég hana til að láta til skarar skríða og gefa kost á sér í flokksvalinu næsta laugardag, og stefna á 2. sætið. Ég sé ekki eftir því, og ég veit að Reykvíkingar þurfa á henni að halda.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.




Skoðun

Sjá meira


×