Skoðun

Varúðarmörk eru ekki mark­mið

Jóhann Helgi Stefánsson skrifar

Undanfarna daga hafa talsmenn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) – annars vegar framkvæmdastýran í Viðskiptablaðinu („Tökum umræðuna“) og hins vegar fiskifræðingur SFS á Vísi – vísað í nýja fræðigrein Glover o.fl. og hið svokallaða 4% viðmið. Þar er haldið fram að „allt að 10% ágengi“ eldislaxa sé í lagi fyrir villta stofna og að 4% sé öruggt, vísindalega rökstutt mark. Þetta er dæmi um túlkun vísinda sem byggist ekki á öðru heldur en fjárhagslegum hagsmunum og pólitík. Greinin sem vitnað er til kallar miklu frekar á meiri varúð við íslenskar aðstæður en minni.

Hvað segir Glover-rannsóknin í raun?

Í greininni er notað líkan (IBSEM) til að herma eftir ágengni eldislaxa í norskan villtan laxastofn í 50 ár. Þegar 5–25% eldislax er á hrygningarstöðum árlega fækkar fullorðnum villtum löxum, og fækkar meira með ágengni. Meðalstærð fiska á hverju aldursstigi eykst; lífshættir verða svipaðir og hjá eldisfiskum. Þegar innflæði stöðvast (frá sleppingum) hefst endurheimt, en hún er hæg og erfðamerki frá eldislaxi sitja eftir til frambúðar í erfðamengi villtra laxa.

Rannsóknin sýnir því mælanlegan skaða sem vex með ágengni – ekki að 10% sé saklaust. Hún sýnir líka að náttúrulegt val getur dregið úr hluta skaðans ef tekst að koma í veg fyrir sleppingar. Þetta er mjög langt frá því að vera grænt ljós á áframhaldandi erfðablöndun eins og SFS virðist meina.

Ísland er ekki Noregur

Íslenskar aðstæður eru líka viðkvæmari en forsendur líkansins sem greinin fjallar um:

Íslenskar ár hýsa íslenska erfðafræðilega aðskilda stofna, hver með sína staðbundnu aðlögun.

Eldislaxinn hér er norskur SAGA-stofn, kynbættur erlendis og erfðafræðilega fjarlægari íslenskum stofnum en norskur eldislax er norskum villtum stofnum.

Náttúrulegt flakk laxa milli áa, sem hingað til hefur haldið uppi fjölbreytileika, getur orðið burðarleið fyrir SAGA-gen þegar þau hafa komist inn í fáar ár.

Þetta allt kallar á strangari viðmið en í Noregi.

4% – þak, ekki markmið

Rétt er að 4% viðmiðið kemur úr áhættumati Hafrannsóknastofnunar, og að Alþjóða hafrannsóknaráðið segir það samrýmast varúðarreglu. En 4% er skilgreint sem hámark þess ágengis sem líkan má leyfa áður en áhætta telst fara út fyrir varúð – ekki sem „gott“ eða „áhættulaust“ ástand.

Þess ber að geta að varúðarmörk þýða aldrei „allt undir þessu er í lagi“, heldur eru varúðarmörk oft skilgreind sem ytri mörk þess sem hægt er að réttlæta tímabundið, miðað við óvissu og pólitíska raunveruleika“. Að snúa 4% – eða jafnvel 10% – upp í ásættanlegt markmið fyrir íslenskar ár er því pólitísk túlkun, ekki vísindaleg niðurstaða.

Tökum umræðuna – alla leið

Við erum sammála framkvæmdastjóra SFS um að umræðan eigi að byggjast á skynsemi og vísindum. Þá verðum við hins vegar líka að horfast í augu við þau vísindi sem sýna að

erfðablöndun eldislaxa dregur úr aðlögunarhæfni, breytir lífsháttum og ógnar langtímalífsgetu villtra stofna – og við búum við þá staðreynd að hér á landi höfum við upplifað regluleg umhverfisslys, óbætt tjón og ógreidda reikninga eftir sleppingar eldislaxa úr sjókvíum. Sem leiðir af sér að við verðum að stoppa í götin á nýja lagareldisfrumvarpinu, líkt og þarf stoppa í götin á sjókvíunum.

0% sem markmið – 4% sem neyðarþak

Markmið í vernd villtra íslenskra laxastofna á að vera 0% ágengi eldislaxa í íslenskar ár. 4% viðmiðið má, í hæsta lagi, skilja sem tímabundið neyðarþak í kerfi sem er enn fast í opnu sjókvíaeldi – ekki sem leyfilegt mengunarmark. Strok eldislaxa þarf þó að hafa afleiðingar fyrir rekstraraðilla og það tjón sem strokulaxar valda þarf að vera að fullu bætt til eiganda áa sem fóstra lax.

Að lokum, vil ég minna á að hvergi í veröldinni hefur tekist að vera með opið sjókvíaeldi með frjóum fiski án þess að stórskaða villta laxastofna. Það er vísindaleg staðreynd.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands veiðifélaga.




Skoðun

Sjá meira


×