Innlent

Lilja sækist eftir því að leiða Fram­sókn

Eiður Þór Árnason skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins. Vísir/Egill

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi menningar- og viðskiptaráðherra, ætlar að gefa kost á sér í formannssæti flokksins. Þetta tilkynnti hún á félagsfundi Framsóknarfélags Reykjavíkur sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í kvöld.

Mbl.is greindi fyrst frá. Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sækist einnig eftir formennsku á komandi flokksþingi Framsóknar í febrúar. 

Vilja Lilja og Ingibjörg taka við af Sigurði Inga Jóhannssyni sem sækist ekki eftir endurkjöri sem formaður. Willum Þór Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Framsóknar, tilkynnti fyrr í kvöld að hann hyggist ekki bjóða fram krafta sína á flokksþinginu þann 14. til 15. febrúar sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica. Hvatti Willum þess í stað Lilju til að bjóða sig fram.

Lilja hefur ekki sæti á Alþingi en var þingmaður Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður á árunum 2016 til 2024.

Hún var utanríkisráðherra 2016 til 2017, mennta- og menningarmálaráðherra árin 2017 til 2021, og loks menningar- og viðskiptaráðherra 2021 til 2024. Lilja hefur verið varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 2016.

Fréttin verður uppfærð. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×