Erlent

Reyndu að fá dómara til að hlutast til um mál Le Pen

Kjartan Kjartansson skrifar
Marine Le Pen reynir nú að hnekkja banni sem hún fékk við því að bjóða sig fram til opinbers embættis. Hún nýtur samúðar Bandaríkjastjórnar.
Marine Le Pen reynir nú að hnekkja banni sem hún fékk við því að bjóða sig fram til opinbers embættis. Hún nýtur samúðar Bandaríkjastjórnar. Vísir/EPA

Bandarískir embættismenn báðu franskan dómara um að hlutast til í máli Marine Le Pen, leiðtoga jaðarhægrimanna, í fyrra. Dómaranum varð svo bilt við að hann lét utanríkisráðuneytið vita af tilraunum Bandaríkjamannanna.

Tveir ráðgjafar bandaríska utanríkisráðuneytisins funduðu með Magali Lafourcade, frönskum dómara, í fyrra en sendiráð Bandaríkjanna hafði milligöngu um að skipuleggja hann. Þeir báðu um fundinn með Lafourcade vegna stöðu hennar sem framkvæmdastjóri ráðgjafarráðs frönsku ríkisstjórnarinnar í mannréttindamálum.

Lafourcade segir blaðinu Politico að fundurinn hafi hafist á umræðum um tjáningarfrelsi almennt en fljótlega hefðu Bandaríkjamennirnir beint umræðunni að Marine Le Pen, leiðtoga Þjóðfylkingarinnar.

Le Pen hlaut dóm fyrir fjárdrátt í fyrra og var bannað að bjóða sig fram til opinbers embættis í fimm ár. Að óbreyttu getur hún því ekki boðið sig fram til forseta á næsta ári.

„Þeir virtust telja að þetta væru algerlega pólitísk réttarhöld vegna þess að hún væri stjórnarandstæðingur,“ segir Lafourcade.

Bandaríkjamennirnir hefðu ekki haft áhuga á útskýringum hennar á hvernig franska réttarvörslukerfið virkaði en spurðu hana þess í stað hvort hún gæti hlutast til í máli Le Pen. Hún hefði sagt þeim að ráðið blandaði sér ekki í einstök dómsmál.

Svo miklar áhyggjur hafði Lacourde af framferði bandarísku embættismannanna að hún lét franska utanríkisráðuneytið vita af fundinum. Ráðuneytið vildi ekki tjá sig við Politico.

Vildi að bandarískir skattgreiðendur styddu Le Pen

Annar bandarísku embættismannanna, Samuel Samson, vakti athygli í fyrra þegar hann lagði til að Bandaríkjastjórn styrkti málsvörn Le Pen með opinberu fé. Hann, líkt og aðrir stjórnarliðar í Bandaríkjunum, hefur hamast gegn Evrópu sem hann lýsir sem „gróðarstíu“ ritskoðunar á netinu, fjöldainnflutnings fólks og takmarkana á trúfrelsi.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins staðfesti að fundurinn hefði átt sér stað en lýsti ásökunum um tilraun til afskipta sem „ósönnum orðómi“ þrátt fyrir að Lafourcade hafi sjálf sagt frá því sem fór fram.

Franskur dómstóll hefur nú áfrýjun Le Pen á dómnum til meðferðar. Hún bar vitni í málinu í gær og varpaði þar ábyrgð á fyrrverandi Evrópuþingsmenn flokks hennar og aðra.

Le Pen og félagar voru sakfelldir fyrir misferli með styrki frá Evrópuþinginu. Þeir hefðu látið þingið greiða fyrir starfsmenn flokksins í Frakklandi þrátt fyrir að þeir ynnu lítið eða ekkert fyrir Evrópuþingmenn hans.

Amast gegn Evrópu

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem núverandi valdhafar í Washington-borg reyna að hafa áhrif á frönsk innanríkismál, ef marka má nýlega umfjöllun þýska tímaritsins Der Spiegel.

Bandaríska utanríkisráðuneytið var sagt íhuga að leggja refsiaðgerðir á dómarana sem sakfelldu Le Pen svipað og það hefur gert við dómara við Alþjóðasakamáladómstólinn sem gáfu út handtökuskipun á hendur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, vegna stríðsglæpa á Gasa.

Eftir að Donald Trump tók aftur við embætti forseta í fyrra hefur Bandaríkjastjórn  byggt upp tengsl við fjarhægriflokka í Evrópu, þar á meðal Valkost fyrir Þýskaland, Frelsisflokk Geert Wilders í Hollandi og Þjóðfylkingu Le Pen í Frakklandi.

Bandaríkjastjórn hefur á sama tíma deilt hart á stjórnvöld í Evrópu fyrir það sem hún segir ritskoðun og kúgun á þessum fjarhægriöflum. Hún beitti nýlega fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Evrópusambandinu og baráttufólk gegn hatursorðræðu og upplýsingafals á netinu refsiaðgerðum fyrir ritskoðun á bandarískum viðhorfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×