Handbolti

Al­freð mætti með sína menn klára í leik upp á líf eða dauða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska landsliðsins, er þekktur fyrir að undirbúa sín lið vel fyrir mikilvæga leiki og enn eitt dæmið um það var i flottum sigri á Spánverjum í kvöld.
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska landsliðsins, er þekktur fyrir að undirbúa sín lið vel fyrir mikilvæga leiki og enn eitt dæmið um það var i flottum sigri á Spánverjum í kvöld. Getty/Sina Schuldt

Þjóðverjar tryggðu sér í kvöld sæti í milliriðli á Evrópumótinu í handbolta en þá breyttist erfið staða lærisveina Alfreðs Gíslasonar skyndilega í lykilstöðu fyrir framhaldið.

Þýska handboltalandsliðið átti það á hættu að vera úr leik á EM en strákarnir hans Alfreðs Gíslasonar voru heldur betur klárir í verkefnið í kvöld.

Þýska liðið tók frumkvæðið strax í byrjun, hélt því út leikinn og vann á endanum tveggja marka sigur, 34-32. Það besta við þetta er að þýska liðið tekur bæði stigin tvö og markatöluna með sér inn í milliriðilinn.

Þýska landsliðið mátti alls ekki tapa leiknum en hefði komist áfram í milliriðil með jafntefli. Sigurinn þýðir aftur á móti að liðið fer úr því að upplifa mögulegan stóran skandal í það að vera í flottum málum með tvö stig í milliriðlinum.

Alfreð Gíslason gerði slæm mistök í tapleiknum á móti Serbíu en honum tókst að bæta fyrir það með því að gíra menn sína vel upp fyrir baráttuna í kvöld.

Spánverjar höfðu unnið tvo fyrstu leiki sína en þeir réðu ekki við samheldið og einbeitt þýskt landslið í kvöld.

Eftir tuttugu mínútna leik voru Þjóðverjar komnir þremur mörkum yfir og sex leikmenn liðsins voru komnir með tvö mörk. Það voru allir klárir í þennan leik því Andreas Wolff varði líka vel í markinu.

Þýska liðið komst mest fjórum mörkum yfir undir hálfleikinn en Spánverjar löguðu stöðuna og það munaði bara tveimur mörkum á liðunum í hálfleik þar sem þýska liðið leiddi 17-15.

Þýska liðið byggði ofan á þetta í seinni hálfleiknum þar sem liðið var alltaf skrefum á undan spænska liðinu.  Liðið átti mögulega að komast fimm mörkum yfir en spænska liðið slapp með tveggja marka tap.

Renars Uscins var markahæstur í þýska liðinu með átta mörk. Julian Köster skoraði sex mörk og þeir Juri Knorr og Justus Fischer skoruðu fimm mörk hvor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×