Innlent

Stjórn­völd „í blind­flugi“ í mennta­málum í rúman ára­tug

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnaði Kara Connect og var áður aðstoðarmaður menntamálaráðherra.
Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir stofnaði Kara Connect og var áður aðstoðarmaður menntamálaráðherra. Vísir/Vilhelm

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Köru Connect, segir stjórnvöld hafa verið í blindflugi í menntamálum í rúman áratug. Allir mælikvarðar hafi verið á niðurleið frá árinu 2012 og á sama tíma og önnur lönd í svipaðri stöðu hafi komið sér á strik hefur Íslendingum ekkert tekist að spyrna fótum.

Hún segir að þau fjölmörgu átök sem hrundið hefur verið af stað hafi litlum mælanlegum árangri skilað og að í raun viti menntamálayfirvöld ekki neitt um stöðu mála.

„Það er verið að tala um þessi átök en eðli málsins samkvæmt eru þetta aðferðir við að hjálpa krökkum að lesa. Það er verið að mæla tíunda bekk. Og tíundi bekkur kann umskráningu, hann kann að lesa. En hann les ekki þunga texta. Mér finnst vanta rosalega í umræðunni að við erum í blindflugi, við vitum ekki hvar hún brotnar þessi keðja hjá okkur. Hvort okkur vanti meira námsefni eða þyngri lestur,“ segir Þorbjörg Helga en hún ræddi skólamálin ásamt Ragnar Þór Péturssyni kennara og fyrrverandi formann KÍ og Ingibjörgu Isaksen þingkonu Framsóknarflokksins.

Önnur lönd náð sér

Hún kveðst hafa gagnrýnt yfirvöld lengi fyrir aðgerðarleysi í málaflokknum. Sama fjármagn fylgi hverjum nemenda í dag og árið 2017.

„Við höfum ekkert tekið samtal um hvort við eigum að fjölga íslenskutímum. Nú eru 10 ár síðan fór að halla svona rosalega undir fæti. Ekki að við höfum verið rosa stolt af okkur þá, þá vorum við bara rétt yfir meðaltalið. Önnur lönd sem fengu sambærilegt áfall, þeim hefur tekist að ná sér aftur á strik,“ segir hún.

Lifum á gömlum sigrum

Þorbjörg segir vandamál skólakerfisins ekki einskorðast við skóla landsins. Þau endurspegli örar breytingar í samfélaginu öllu.

„Þetta er ekki bara skólavandamál. Þetta er miklu stærra og meira samfélagslegt álitamál fyrir okkur. Við segjum í útlöndum að við séum tónlistarþjóð og hættum að fjárfesta, við segjum að við séum bókmenntaþjóð og hættum að fjárfesta. Við lifum á fyrri afrekum á meðan við ættum að vera að segja að við ætlum að passa upp á þessa arfleifð Íslands, við ætlum að passa að við höldum áfram að skrifa á íslensku og búa til íslenskan menningarheim,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×