Sport

„Við erum á öldunni okkar núna og erum að njóta þess“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, var stoltur af leikmönnunum sínum að leik loknum.
Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, var stoltur af leikmönnunum sínum að leik loknum. Anton Brink

ÍBV tyllti sér á topp Olís-deildarinnar eftir sigur á ÍR-ingum 26-29 í Skógarseli í kvöld. Magnús Stefánsson, þjálfari liðsins, var sáttur með framlag leikmanna í kvöld gegn sterku liði ÍR.

„Virkilega góður sigur en á sama tíma virkilega erfiður sigur á móti vel skipulögðu liði ÍR. Þeirra einkenni er góður varnarleikur og keyra hratt upp völlinn og það eru fá lið í deildinni sem að gera þetta jafn vel og ÍR liðið. Við þurftum því að hafa virkilega mikið fyrir þessu hér í dag,“ sagði Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, eftir sjöunda sigur liðsins í röð í deildinni.

„Stelpurnar gerðu það sem þurfti til þess að sækja þennan sigur og ég er ofboðslega ánægður með nálgunina hjá þeim inn í þennan leik. Mér fannst þær ekki bogna eða brotna, fókusinn þeirra var á réttum stað.“

Góð stemning í hópnum er sýnileg og ljóst að það hafi áhrif á frammistöðu leikmanna.

„Fyrst og síðast eru það þessir leikmenn og þessar stelpur. Þær eru að leggja ofboðslega mikla vinnu á sig á hverjum einasta degi og í hverri einustu viku. Þær eru að njóta þess að spila handbolta og stemningin í hópnum er frábær, skiptir ekki máli hvort það sé elsti leikmaðurinn eða yngsti. Það er alltaf sama grínið í gangi í kringum æfingar og í kringum þessar ferðir.“

„Við erum á öldunni okkar núna og erum að njóta þess á meðan það er svoleiðis.“

ÍBV hafnaði í 6. sæti á síðustu leiktíð en liðið hefur nú unnið sjö leiki í röð og eru á þvílíkri siglingu. Aðspurður hvort markmiðið væri að vinna deildina að þá var svarið einfalt.

„Algjörlega, það væri skrítið að segja eitthvað annað vegna þess að við erum í fyrsta sæti ásamt Val. Valur er náttúrulega með frábært lið og tvo menn í hverri einustu stöðu. Svarið við spurningunni er þó einfalt já að sjálfsögðu ætlum við að halda okkur þarna eins lengi og við getum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×