Skoðun

Kynslóða­skipti í land­búnaði – á­skorun fram­tíðarinnar

Jódís Helga Káradóttir skrifar

Kynslóðaskipti í landbúnaði eru ekki jaðarmál heldur stefnumarkandi áskorun sem snertir framtíð byggða, fæðuöryggi og efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Í samfélögum þar sem landbúnaður er undirstaða atvinnu og menningar eru kynslóðaskipti prófsteinn á það hvort samfélagið í heild styðji við áframhaldandi búsetu og framleiðslu. Á Íslandi er þessi áskorun sérstaklega áleitinn vegna smæðar markaðarins, mikils stofnkostnaðar og óvissu um afkomu.

Íslenskur landbúnaður er að stórum hluta byggður á fjölskyldubúum, oft í smáum og viðkvæmum samfélögum. Meðalaldur bænda hækkar stöðugt og víða er óljóst hver taki við þegar eldri kynslóðin dregur sig í hlé. Hindranir eru margar, þ.á.m. hátt verð á jörðum og búnaði, takmarkað aðgengi að fjármagni, óvissa um afkomu og stuðningskerfi. Auk þess sem félagslegar aðstæður, t.a.m. þjónusta, húsnæði og atvinnumöguleikar maka skipta sífellt meira máli. Fyrir ungt fólk er ákvörðunin um að taka við búi því ekki aðeins val á lífsviðurværi, heldur áhættusöm fjárfesting.

Landbúnaður á Íslandi er grundvallaröryggismál. Innlend matvælaframleiðsla tryggir fæðuöryggi í landi sem er afskekkt, háð innflutningi og viðkvæmt fyrir truflunum í alþjóðlegum aðfangakeðjum. Þegar matvæli eru framleidd innanlands verða til störf, verðmætasköpun helst í íslensku hagkerfi og gjaldeyrisútstreymi vegna innflutnings minnkar. Áhrifin ná langt út fyrir bóndann sjálfan, vinnsla, flutningar, þjónusta og nýsköpun byggjast á innlendri frumframleiðslu. Þá dregur hún úr kolefnisspori miðað við langar flutningsleiðir. Stuðningur við landbúnað og kynslóðaskipti er því ekki sérhagsmunamál, heldur fjárfesting í efnahagslegu öryggi og sjálfbærni Íslands í heild sinni.

Í Noregi hefur lengi verið rík pólitísk samstaða um að líta á landbúnað sem hluta af byggðastefnu og þjóðaröryggi. Þar er beitt markvissum aðgerðum til að auðvelda kynslóðaskipti, t.a.m. með sértækum lánum fyrir unga bændur, styrkjum við yfirtöku, niðurgreiddum vöxtum og skýru regluverki sem tryggir fyrirsjáanleika. Opinber stefna miðar að því að dreifa búsetu, viðhalda menningarlandslagi og tryggja innlenda matvælaframleiðslu, jafnvel þar sem rekstrarleg hagkvæmni ein og sér væri ekki næg. Þessi nálgun sendir skýr skilaboð, samfélagið stendur við bakið á bændum og dregur þannig úr áhættu fyrir unga aðila.

Þrátt fyrir yfirlýsingar um mikilvægi málefnisins hafa íslensk stjórnvöld enn ekki sett fram afrdráttarlausar aðgerðir sem auðvelda kynslóðaskipti í reynd. Í svari atvinnuvegaráðherra við fyrirspurn á Alþingi um kynslóðaskipti og nýliðun í landbúnaði er vísað til stjórnarsáttmála og landbúnaðarstefnu frá 2023, þar sem almennt er talað um að auðvelda nýliðun. Hins vegar felast svörin fyrst og fremst í áframhaldandi samráði og undirbúningi nýs stuðningskerfis sem taka á gildi við lok núverandi samninga í enda þessa árs. Beinn stuðningur til nýliðunar takmarkast enn við fjárfestingarstyrki og engar nýjar, sértækar aðgerðir hafa verið innleiddar sem draga úr þeim hindrunum sem ungt fólk stendur frammi fyrir við yfirtöku búa.

Reynslan sýnir að kynslóðaskipti í landbúnaði ráðast ekki af vilja einstaklinga einum saman, heldur af því umhverfi sem stjórnvöld móta. Ábyrgð stjórnmálamanna er að skapa stöðugt og fyrirsjáanlegt starfsumhverfi þar sem ungt fólk getur tekið upplýsta ákvörðun um framtíð sína án þess að leggja allt sitt undir. Með skýrri langtímasýn, aðgengilegum fjármögnunarleiðum og raunverulegum aðgerðum, ekki aðeins yfirlýsingum, má auka líkur á farsælum kynslóðaskiptum.

Kynslóðaskipti í landbúnaði eru lykilatriði fyrir framtíð landsbyggðarinnar, fæðuöryggi og efnahagslegt sjálfstæði. Ísland getur lært af norsku leiðinni, en þarf jafnframt að móta lausnir sem taka mið af íslenskum aðstæðum. Á endanum snýst málið um pólitíska forgangsröðun, hvort samfélagið vilji tryggja að næsta kynslóð hafi raunhæfan möguleika á að rækta landið, framleiða matinn og halda uppi lífi í sveitum landsins.

Höfundur er formaður Ungliðahreyfingar Miðflokksins á Norðurlandi vestra.




Skoðun

Sjá meira


×