Innlent

Fífils­gata verður Tún­fífils­gata en ekki Hlíðar­fótur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Nýjar götur myndast við byggingu nýs Landspítala. Þær hafa allir fengið nöfn en tveimur verið breytt.
Nýjar götur myndast við byggingu nýs Landspítala. Þær hafa allir fengið nöfn en tveimur verið breytt. Vísir/Vilhelm

Gatnanafnanefnd hefur samþykkt að breyta nafni Fífilsgötu í Túnfífilsgötu.  Nefndin hafði áður ákveðið að breyta nafninu götunnar í Hlíðarfótur því nafnið væri of líkt nafni annarrar götu, Vífilsgötu, í Norðurmýri.

Nefndin tók fyrir erindi frá Nýjum Landspítala í desember og í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá því í gær kemur fram að nefndin hafi tekið vel í erindið og samþykkt nafnabreytinguna.

Þegar nöfnin á nýjum götum við nýjan spítala voru ákveðin var tekin ákvörðun um að göturnar yrðu, til dæmis, nefndar eftir íslenskum lækningajurtum. Lagt var til að göturnar fengju nöfnin Burknagata, Blóðbergsgata, Hvannargata, Njólagata og Fífilsgata og kallast á við nöfnin í götunum í kring sem eru, til dæmis, Sóleyjargata og Fjólugata.

Síðar var fallið var frá nafninu Njólagata vegna þess að fólk tengir njóla frekar við villijurt en jurt sem kveikir og viðheldur lífsvon. Spítalinn stendur því í dag við Burknagötu frekar en Njólagötu. Fjallað var svo um það í umhverfis- og skipulagsráði í október að örnefnanefnd leggðist gegn Fífilsgötu, það væri of líkt Vífilsgötu, og fengi nafnið Hlíðarfótur.

Í erindi Nýs Landspítala til gatnanafnanefndarinnar segir að nýlega hafi verið tilkynnt að í stað þess að nefna götuna Fífilsgötu myndi hún fá nafnið Hlíðarfótur og þannig verða framlenging á götu sem er þegar í Hlíðunum, á Valsreit. Við þá breytingu lengdist gatan og tilheyrði tveimur póstnúmerum og kjördæmum. Nýr Landspítali bendir á að þessi ákvörðun gatnanafnanefndar hafi verið gagnrýnd á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Þau leggi því til að í stað þess að gatan fái nafnið Hlíðarfótur fái hún nafnið Túnfífilsgata.

„… því vissulega var um að ræða túnfífil sem bar uppi nafn Fífilsgötu. Túnfífill er hin eiginlega lækningajurt til forna og mun Túnfífilsgata kallast þannig áfram á við þær götur sem bera nöfn íslenskra gróðurtegunda og lækningajurta. Engar líkur eru á því gagnvart örnefnum að rugla Túnfífilsgötu við Vífilsgötu,“ segir að lokum í erindi spítalans til nefndarinnar, sem tók vel í og samþykkti breytinguna.

Á þessu korti má sjá hvað göturnar heita og hvar þær eru á skipulagi. Túnfífilsgata er sú sem er rauðmerkt lengst til vinstri á kortinu. Nýr Landspítali

Aðrar götur við nýjan spítala heita Hildigunnargata, Þjóðhildargata, Freydísargata og Hrafnsgata og eru þannig með skírskotun í Íslendingasögur og íslenska miðaldamenningu tengda sögu læknisfræðinnar.

Hildigunnur læknir er nefnd í Njálu og sýnd græða fólk og af lækningum Hrafns Sveinbjarnarsonar, goðorðsmanns og læknis, segir talsvert í sögu hans. Nöfnin eru því heilbrigðiskerfinu sérstaklega til heiðurs.


Tengdar fréttir

Burknagata opnuð fyrir umferð

Burknagata verður opnuð fyrir umferð á morgun en um er að ræða hluta af gömlu Hringbrautinni sem lokað var vegna framkvæmda við nýja Landspítalann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×