Skoðun

Börnin geta ekki beðið lengur. Hættum að ræða og byrjum að fram­kvæma

Róbert Ragnarsson skrifar

Við vitum hvað þarf að gera. Hugmyndirnar liggja fyrir, tillögurnar eru til, fagþekkingin er til staðar. Það sem vantar er pólitískur vilji til að klára málin. Það er einfaldlega óásættanlegt að ár eftir ár ræðum við sama úrræðaleysið í skólakerfinu án þess að gripið sé til raunverulegra aðgerða. Börnin geta ekki beðið lengur.

Skóli án aðgreiningar hefur haft gríðarlega jákvæð áhrif. Hann hefur rofið félagslega einangrun barna með fötlun, aukið þátttöku þeirra og bætt lífsgæði margra fjölskyldna. Hugmyndafræðin er mikilvæg og rétt, en hún dugar ekki fyrir öll börn, alltaf.

Raunveruleikinn er sá að sum börn þurfa mjög sérhæfða þjónustu sem verður ekki veitt innan almenns skólastarfs, jafnvel þótt viljinn sé fyrir hendi. Umræða um skólaþjónustu á ekki að snúast um „annað hvort eða“, heldur bæði og. Úrræði eiga að ráðast af þörfum barnsins en ekki hugmyndafræðilegri rörsýn eða kreddum.

Foreldrar barna með sérþarfir verja ómældum tíma og orku í að berjast fyrir grunnþjónustu. Tíma sem ætti að fara í að styðja börnin sín og vera fjölskylda. Ég hef hitt forsvarskonur biðlisti.is sem hafa skýra sýn á hvernig megi bæta þjónustuna. Við verðum að hlusta á notendur og leyfa fagfólki að útfæra lausnir byggðar á bestu þekkingu og reynslu.

Sérskólar

Klettaskóli og Brúarskóli eru sprungnir, biðlistar langir og eftirspurn langt umfram framboð. Nemendur koma úr mörgum sveitarfélögum, en ábyrgðin hvílir að mestu á Reykjavíkurborg. Þar þarf að taka af skarið og kalla önnur sveitarfélög að borðinu.

Ég hef starfað sem ráðgjafi fyrir Reykjavíkurborg og komið að úrbótatillögum í rekstri sérskólanna. Niðurstaðan er að það þarf að opna annan sérskóla. Að ekki hafi tekist að ná pólitískri samstöðu um slíkt er óásættanlegt þegar börn bíða eftir nauðsynlegri þjónustu.

Íslenskubrú

Svipaður vandi blasir við í þjónustu við nemendur af erlendum uppruna. Kennarar hafa kallað eftir markvissari úrræðum, meðal annars með innleiðingu svokallaðs brúarnáms, á borð við Íslenskubrú. Í þessum úrræðum fá nemendur markvissan tungumálastuðning samhliða því að taka þátt með sínum bekk í íþróttum og verklegum greinum. Smám saman færast þeir svo inn í almennt nám með stuðningi. Þetta er mannúðleg, fagleg og skynsamleg leið sem gagnast bæði nemendum og kennurum. Slík úrræði eru þekkt víða á Norðurlöndum. Þar sýna rannsóknir jafnframt að þegar nemendur af erlendum uppruna eru spurðir um reynslu sína af brúarnámi eru þeir sammála um að þeir hefðu viljað komast fyrr inn í almennan bekk. Þar ná þeir betri tökum á tungumálinu, þjálfa samskipti og efla menningarlæsi sitt.

Við verðum að þora að endurskoða kerfin okkar þegar þau virka ekki nægilega vel. Börn eiga ekki að falla milli kerfa vegna skorts á hugrekki í ákvarðanatöku.

Sem leiðtogi Viðreisnar í Reykjavík mun ég beita mér fyrir skýrum og raunhæfum lausnum. Stytta biðlista og fjölga úrræðum í samstarfi sveitarfélaga.

Höfundur er stjórnmálafræðingur Msc og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×