Innlent

Veittu öku­manni eftir­för sem endaði á ljósa­staur

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Billinn endaði á ljósastaur við Ártúnsbrekku eftir að ökumaður virti stöðvunarmerki lögreglu að vettugi.
Billinn endaði á ljósastaur við Ártúnsbrekku eftir að ökumaður virti stöðvunarmerki lögreglu að vettugi. Vísir

Tilraun ökumanns til að komast undan lögreglu sem hafði veitt honum eftirför síðdegis í dag endaði ekki betur en svo að bíll hans hafnaði á ljósastaur við Ártúnsbrekku í Reykjavík. Uppákoman hefur valdið nokkrum umferðartöfum á svæðinu til viðbótar við annars nokkuð þunga síðdegisumferð samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar bíllinn lenti á ljósastaur og viðbragðsaðila að störfum á vettvangi en lögreglan var við eftirlit þegar hún hugðist stöðva ökumanninn sem virti beiðni þar um að vettugi.

„Þetta var ökumaður á fólksbifreið sem virti ekki stöðvunarmerki lögreglu. Honum var veitt eftirför og bifreiðin endaði þarna á ljósastaur. Hann var síðan handtekinn og færður á lögreglustöð,“ segir Árni Friðleifsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki virðist sem viðkomandi hafi verið mikið slasaður enda var ekki kallað eftir sjúkrabíl á vettvang, en bíllinn hafnaði á ljósastaur við aðreinina af Reykjanesbraut og upp í Ártúnsbrekku. Að öðru leyti kveðst Árni ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×