Erlent

Vance ætlar að sitja fundinn með Løkke og Rubio

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
J.D Vance ætlar að sitja fundinn.
J.D Vance ætlar að sitja fundinn. EPA/WILL OLIVER

Lars Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur og Vivian Motzfeldt utanríkisráðherra Grænlands funda með Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna á morgun í Washington D.C og hefur J.D. Vance varaforseti einnig óskað þess að sitja fundinn.

Danska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Þar segir að fundurinn fari því fram í Hvíta húsinu en Rasmussen ræddi málið við danska fréttamenn fyrir skömmu. Ráðherrann sat í morgun fund í utanríkismálanefnd danska þingsins vegna málefna Grænlands en líkt og komið hefur fram hafa bandarískir ráðamenn ítrekað lýst því yfir að þeir telji að Bandaríkin eigi að ná yfirráðum í landinu.

Danski miðillinn segir að það sæti mikilla tíðinda að varaforsetinn hafi óskað eftir því að sitja fundinn. Það auki mikilvægi hans til muna og sýni fram á alvarleika málsins. Vance hefur verið einn helsti gagnrýnandi Danmerkur í ríkisstjórn Trump og meðal annars sagt fullum fetum að Danmörk sé slæmur bandamaður Bandaríkjanna.

Rifjar danska ríkisútvarpið það upp þegar Vance tók Volodomír Selenskí Úkraínuforseta á teppið á fundi með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu á síðasta ári. Løkke fari því líklega með þandar taugar á fundinn. Þá er einnig greint frá því að Troels Lund Poulsen varnarmálaráðherra Danmerkur hafi óskað eftir því að funda með Mark Rutte framkvæmdastjóra NATO á mánudag í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×