Erlent

Nýtt mynd­band af banaskotinu: „Helvítis tík“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Mikil óánægja er með aðgerðir ICE í Minneapolis.
Mikil óánægja er með aðgerðir ICE í Minneapolis. AP Photo/Jen Golbeck

Fjöldi fólks kom saman í Minneapolis og Portland í Bandaríkjunum í gær til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda í innflytjendamálum undanfarna daga. Meira en þúsund mótmæli hafa verið skipulögð um helgina um landið allt og er þess krafist að stjórnvöld stöðvi aðgerðir.

Mótmælt var í Minneapolis í gærkvöldi en mikil spenna hefur verið í borginni undanfarna daga eftir að starfsmaður Innflytjenda- og tollaeftirlitsins ICE skaut hina 37 ára gömlu Renee Good til bana á miðvikudag. Myndband af atvikinu hefur farið víða en Good var í bíl sínum þegar ICE hafði af henni afskipti. Eftir orðaskak gerði Good tilraun til að aka í burtu en var skotin í höfuðið.

Yfirvöld hafa í kjölfarið sakað Good um hryðjuverkastarfsemi og sagt hana hafa reynt að bana útsendara ICE með því að keyra yfir hann. Í nýju myndbandi af atvikinu, sem tekið var upp af ICE-fulltrúa, heyrist hann segja henni að fara út úr bílnum áður en Good reynir að keyra fram hjá honum. Hleypt er af skotum og heyrist einhver segja „helvítis tík“ strax á eftir.

Einnig var mótmælt í Portland í gærkvöldi en útsendarar heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna skutu og særðu í fyrradag tvo, sem sátu í bíl fyrir utan sjúkrahús í borginni. 

Yfirvöld segja farþega í bílnum glæpamann sem dvelji ólöglega í Bandaríkjunum grunaður um vændisstarfsemi og fleira glæpsamlegt. Þau hafa einnig haldið því fram að ökumaðurinn hafi reynt að keyra yfir útsendara ráðuneytisins en ekkert hefur komið fram því til stuðnings.

Hjón voru í bílnum og þurftu bæði að gangast undir skurðaðgerð en þau sögð í stöðugu ástandi.

Nú hafa meira en þúsund mótmæli verið skipulögð yfir helgina, flest í borgum og bæjum þar sem fulltrúar Demókrata fara með stjórn.


Tengdar fréttir

Hjón skotin af alríkisútsendurum í Portland

Útsendarar heimavarnaráðuneytis Bandaríkjanna skutu og særðu í gær tvo í bíl fyrir utan sjúkrahús í Portland. Það var degi eftir að kona var skotin til bana í Minneapolis en eins og þar leiddi skothríðin í Portland til nokkuð umfangsmikilla mótmæla í borginni í nótt.

Mikil spenna í Minneapolis eftir banaskot ICE-liða

Kristi Noem, heimavarnaráðherra Bandaríkjanna, segir ekki koma til greina að útsendarar hennar fari frá Minneapolis, eftir að starfsmaður Innflytjenda- og tollaeftirlits Bandaríkjanna (ICE) skaut 37 ára gamla konu til bana í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×