Erlent

Flytja á­höfn geimstöðvarinnar heim vegna veikinda

Kjartan Kjartansson skrifar
Alþjóðlega geimstöðin á braut um jörðina.
Alþjóðlega geimstöðin á braut um jörðina. AP/NASA

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur ákveðið að flytja áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar til jarðar á næstu dögum, mánuði á undan áætlun, vegna alvarlegra veikinda eins geimfaranna. Þetta er í fyrsta skipti sem geimleiðangur er styttur vegna veikinda.

Ekki hefur verið greint frá því hver geimfaranna er veikur né hvað hrjáir hann. Aðeins hefur verið staðfest að veikindin tengist ekki verunni í geimstöðinni og að ekki sé um meiðsli að ræða.

Hætt var við fyrirhugaða geimgöngu tveggja bandarískra geimfara um borð í stöðinni vegna veikindanna í gær. Það eru þau Mike Fincke og Zena Cardman.

Jared Isaacman, forstjóri NASA, tilkynnti í gær að dvöl fjögurra manna teymisins í svonefndri Áhöfn-11 í geimstöðinni yrði stytt vegna veikindanna. Auk Cardman og Fincke eru Japananinn Kimiya Yui og Rússinn Oleg Platonov hluti af áhöfninni.

Annar bandarískur geimfari verður eftir í geimstöðinni ásamt tveimur Rússum en þeir komu saman í rússneskri Soyuz-geimferju í nóvember.

„Þetta er ekki neyðarflutningur. Við leyfum heilsu geimfaranna alltaf að njóta vafans,“ sagði embættismaður NASA um ákvörðunina.

James Polk, yfirlæknir NASA, segir að þetta sé í fyrsta skipti í sögu stofnunarinnar sem ákveðið hefur verið að stytta geimferð vegna veikinda.

Geimfararnir fjórir sem stefna nú heim komu með geimferju SpaceX til stöðvarinnar í ágúst og áttu að dvelja þar í sex mánuði að minnsta kosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×