Viðskipti innlent

Bíllinn þremur milljónum dýrari

Bjarki Sigurðsson skrifar
Vörugjöld rafbíla voru felld niður.
Vörugjöld rafbíla voru felld niður. Vísir/Vilhelm

Hækkun vörugjalda, sem tók gildi um áramótin, er farin að láta á sér kræla í verði hjá bílaumboðum. Afnám vörugjalda á rafmagnsbíla hefur ekki mikil áhrif eftir lækkun rafbílastyrks og dæmi eru um að ódýrari rafbílar hækki í verði eftir breytinguna.

Um áramótin hækkuðu vörugjöld á bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og hækka gjöldin á fólksbíla úr fimm prósentum í fimmtán. Fyrstu tíu mánuði síðasta árs nýskráðu einstaklingar að meðaltali 468 bíla á mánuði. Í byrjun október var tilkynnt að vörugjöldin myndu hækka og fjölgaði nýskráningum þá gríðarlega. Í nóvember voru þær 970 og í desember 1030. Ef litið er yfir allt árið fjölgaði nýskráningum um 40 prósent milli ára, en þær voru samt sem áður færri en 2022 og 2023. Hlutdeild bensín- og dísilbíla hefur aldrei verið lægri.

Þrjár til sex milljónir

Sigurður Kr. Björnsson, markaðsstjóri Ísbands, segir verðskrár einhverra umboða enn vera að taka breytingum. Ljóst er að verð nýrra bíla hafi hækkað umtalsvert.

„Við erum að sjá á þeim verðlistum sem eru komnir, og á okkar bílum, að þetta geta verið þrjár til sex milljónir,“ segir Sigurður. 

Biðástand um tíma

Hann sé þó bjartsýnn fyrir nýju ári. Það þýði lítið að vera svartsýnn bílasali.

„Það hefur verið ágætis traffík til okkar. Við erum bjartsýnir og blásum til sýningar næstu helgi,“ segir Sigurður. „Fólk var í smá bið vegna þess að frumvarpið hefði getað tekið breytingum við meðferð þingsins. Þá myndast smá biðástand hjá kaupendum.“

Lækka gjöld og styrk

Á sama tíma voru vörugjöld á rafmagnsbíla afnumin. Hins vegar lækkaði styrkur Loftslags- og orkusjóðs til kaupa á nýjum rafmagnsbílum úr 900 þúsund í 500 þúsund.

„Það kannski jafnast út á sumum bílum, það fer eftir upphæðinni,“ segir Sigurður.

En ódýrustu bílarnir gætu orðið dýrari?

„Já, þeir gætu hafa hækkað í verði. En við erum ekki búin að sjá yfirlit yfir allan markaðinn þannig það er kannski of snemmt að segja til um það,“ segir Sigurður. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×