Fótbolti

Salah gull­tryggði Egypta á­fram í átta liða úr­slitin

Aron Guðmundsson skrifar
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, er landsliðsfyrirliði Egyptalands
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, er landsliðsfyrirliði Egyptalands Vísir/Getty

Landslið Egyptalands er komið áfram í átta liða úrslit Afríkukeppninnar í fótbolta eftir 3-1 sigur í framlengdum leik gegn Benín í kvöld. 

Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, var á sínum stað í byrjunarliði Egyptalands í kvöld og bar fyrirliðabandið og það voru einmitt Egyptar sem komust yfir í leiknum á 69.mínútu með marki frá Marwan Ateya en skot hans fyrir utan vítateig Benín sveif upp í vinstra horn marksins og söng í netinu. 1-0.

Þegar komið var fram á 83.mínútu náði Benín þó að jafna. Það gerði Jodel Dossou er hann kom boltanum í netið af stuttu færi. Staðan orðin 1-1 og það var hún einnig þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma. Grípa þurfti til framlengingar til að skera úr um hvort liðið færi áfram í átta liða úrslitin. 

Þar reyndist Egyptaland hlutskarpara. Á 97. mínútu skoraði Yasser Ibrahim það sem reyndist sigurmark leiksins með skallamarki eftir hornspyrnu. Egyptar komnir yfir í stöðuna 2-1.

Mohamed Salah gulltryggði Egyptaland svo áfram í átta liða úrslit Afríukeppninnar með þriðja marki liðsins á síðustu sekúndum leiksins. Þar batt hann enda á skyndisókn Egyptalands með marki fyrir utan teig. Staðan orðin 3-1 Egyptalandi í vil og þar við sat.

Egyptaland heldur því áfram í átta liða úrslitin en Benín er úr leik. Það ræðst á morgun hverjum Egyptar mæta í átta liða úrslitunum en þó vitað að það verður sigurliðið úr viðureign Fílabeinsstrandarinnar og Burkina Faso.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×