Sport

Orðið fyrir for­dómum allan ferilinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Khawaja sat um 50 mínútna blaðamannafund fyrir síðasta leik hans á ferlinum sem fram fer um helgina.
Khawaja sat um 50 mínútna blaðamannafund fyrir síðasta leik hans á ferlinum sem fram fer um helgina. Darrian Traynor/Getty Images

Ástralski krikketspilarinn Usman Khawaja tilkynnti að kylfan væri á leið upp á hillu um eftir helgina. Hann segir kynþáttafordóma hafa elt hann allan hans feril.

Khwaja er 39 ára gamall og mun spila sinn síðasta leik fyrir ástralska landsliðið gegn Englandi á sunnudaginn í Sydney. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik á sama velli gegn sama andstæðingi árið 2011.

Khawaja er af pakistönskum uppruna og varð fyrsti músliminn til að spila fyrir ástralska liðið þegar hann þreytti frumraun sína.

„Ég er stoltur múslimi, litaður drengur frá Pakistan sem var tjáð að hann myndi aldrei spila fyrir ástralska landsliðið,“ segir Khawaja á tilfinningaþrungnum blaðamannafundi í aðdraganda síns síðasta leiks.

„Sjáið mig núna,“ bætti hann við.

Fundurinn varði í um 50 mínútur en eiginkona Khawaja og börn voru á meðal þeirra sem mættu á hann. Hann sagðist á fundinum hafa fundið fyrir kynþáttafordómum og rasískum staðalímyndum allan hans feril.

„Það hefur birst í umfjöllun fjölmiðla og persónulegum árásum fyrrum leikmanna. Undirbúningur minn var gagnrýndur á persónulegan hátt þegar ég var sagður hugsa aðeins um sjálfan mig og ekki skuldbundinn liði mínu, ég væri sjálfselskur, ég væri latur og æfði ekki nóg,“ segir Khawaja sem segist enn þann dag í dag finna álíka mikið fyrir staðalímyndum á grundvelli uppruna hans og hörundlitar, líkt og hann gerði sem ungur maður.

„Þetta eru sömu rasísku staðalmyndirnir og ég hef alist upp við allt mitt líf. Ég hélt að fjölmiðlar, gamlir leikmenn og samfélagið væri komið lengra. En það er augljóslega ekki þannig,“ segir Khawaja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×