Sport

Lætur drauminn rætast og opnar kín­verskan veitinga­stað

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Justin Hood á sér stóra drauma. 
Justin Hood á sér stóra drauma.  James Fearn/Getty Images

Flesta íþróttamenn í fremstu röð dreymir um að baða sig í dýrðarljómanum og öðlast frægð fyrir sín afrek en pílukastarinn Justin Hood á sér aðeins eitt markmið og það er að opna kínverskan veitingastað.

Justin hefur aldrei komið til Kína en elskar kínverskan skyndibita og eftir að hann komst áfram í átta manna úrslit heimsmeistaramótsins færðist hann nær draumnum um að opna sinn eigin stað.

Eiginkona hans, Jessica, segir hann hafa átt sér þennan draum síðan þau kynntust fyrir tíu árum síðan.

„Við erum ekki búin að kryfja tölurnar og við erum ekki komin með neina alvöru áætlun en þetta mun örugglega gerast á næsta ári“ sagði Jessica en hún hélt heimilinu gangandi á meðan Justin eyddi átta vikum í ólaunuðum æfingabúðum í pílukasti.

Hann hefur nú þegar þénað 100.000 pund í verðlaunafé fyrir að komast í átta liða úrslit og sú upphæð gæti hækkað upp í eina milljón punda ef hann fer alla leið.

Til samanburðar hafði hann mest fengið 6.500 pund í verðlaunafé á einu móti síðustu tvö ár.

„Ég held að þetta sé komið. Við höfum ekkert val úr þessu, við verðum að gera þetta. Tímalínan er ekki alveg á hreinu en við munum skoða þetta allt saman eftir HM“ sagði Justin þegar hann var spurður út í kínverska veitingastaðinn, hundrað þúsund pundum ríkari, í gærkvöldi.

Svo gæti líka verið að næstbesti pílukastari heims, Luke Humphries, sláist í lið með honum og gerist meðeigandi að staðnum.

„Við náum vel saman og hann spurði hvort ég myndi vera með honum í þessu. Hann vill samt bara opna kínverskan veitingastað fyrir frían mat. Ég sagði honum að við þyrftum eitthvað að græða á þessu líka en hann sagði bara nei, hafðu engar áhyggjur af því“ sagði Luke Humphries.

Justin Hood mætir Gary Anderson í átta manna úrslitum í hádeginu á morgun, í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×