Menning

Tekur yfir borgina á ný­árs­dag

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórdís Erla Zoega er höfundur Sólarhings sem mun prýða auglýsingaskjái borgarinnar.
Þórdís Erla Zoega er höfundur Sólarhings sem mun prýða auglýsingaskjái borgarinnar.

Auglýsingahlé verður á yfir 550 skjáum Billboard um alla Reykjavíkurborg frá 1. til 3. janúar 2026 þegar verkið Sólarhringur eftir Þórdísi Erlu Zoëga tekur yfir þá. Í verkinu breytast skjáir borgarrýmisins með birtu dagsins, taka mið af litbrigðum sólarljóssins og verða þannig að stafrænni sólarklukku.

Þórdís var valin úr hópi umsækjenda fyrr á árinu. Dómnefnd skipuð fulltrúa frá Y gallery, Listasafni Reykjavíkur, Billboard og SÍM valdi verkið sem að sýningartíma loknum verður gefið í safneign Listasafns Reykjavíkur.

Reikna má með að yfir 80% höfuðborgarbúa muni sjá verk Þórdísar dag hvern í byrjun árs 2026.

Auglýsingahlé er samstarfsverkefni Billboard, Y gallery og Listasafns Reykjavíkur. Verkefnið er vettvangur fyrir myndlist í almenningsrými og er því ætlað að lýsa upp skammdegið og gefa borgarbúum tækifæri á að njóta listar um alla borgina. Þeir myndlistarmenn sem áður hafa tekið þátt í verkefninu eru Hrafnkell Sigurðsson, Sigurður Ámundason, Haraldur Jónsson og Roni Horn.

Bróðurparti dagsins eytt í skjái

„Í nútímasamfélagi eyðum við bróðurparti dagsins í að horfa á skjái. Skjái sem fylgja okkur í vasanum, skjái sem hanga á veggjum eða standa á borðum, og nú einnig skjái í borgarumhverfinu sem sækja stöðugt á athygli okkar þegar við ferðumst um borgina. Skjáir trufla athyglisgáfu okkar og taka okkur úr augnablikinu. Ég hef oft staðið mig að því sjálf að horfa á fallega náttúru í gegnum símann minn frekar en að líta út um gluggann og upplifa sjónarspil himinsins. Skjáir ýkja liti, gera allt skærara og meira ,,djúsí” en raunveruleikinn sjálfur,“ segir Þórdís í hugleiðingum sínum um verkið.

Með verkinu vill hún hvetja til nýrrar hugsunar um samband manns, tækni og náttúru. Skjárnir breytast með birtu dagsins, taka mið af litbrigðum sólarljóssins og áhrifum þess á himinhvolfið og verða þannig að sólarklukku sem sýnir takt lífsins, þar sem líftími frumunnar fylgir ljósaskiptum sólarhringsins í rauntíma. 

„Innblásturinn kemur bæði úr örheimi frumunnar og víðáttu alheimsins. Þó þessir heimar séu ólíkir lúta þeir báðir náttúrulegum hringrásum. Verkið sýnir tengingu milli hins smæsta og hins stærsta - frumunnar og alheimsins - sem slær saman í einum takti: sólarhringnum,“ segir hún.

Þórdís Erla Zoëga er fædd 1988 og útskrifaðist frá Gerrit Rietveld Academie í Amsterdam árið 2012. Zoëga hefur sýnt verk sín víða, þar á meðal í Kaupmannahöfn, Stokkhólmi, Berlín, Basel og Tékklandi. Á Íslandi hefur hún sýnt verk sín meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, Listahátíð í Reykjavík og átt í samstarfi við BIOEFFECT, Hilton hótel, Íslenska dansflokkinn og Bláa lónið.

Á Íslandi verður verkið Upphaf, ný varanleg innsetning sett upp við inngang nýja Landspítalans og einnig verkið Flæði við tíu innganga Heklureits, nýrrar byggingarsamstæðu í miðbæ Reykjavíkur. Meðal annarra nýlegra verkefna sem hún hefur unnið að eru hönnun á klæðningu 40 metra hás vatnstanks í Helsinki fyrir finnska orkufyrirtækið FORTUM.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.