Innlent

Gróður farinn að grænka fyrir norðan

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Laufin eru óvenju snemma á ferðinni.
Laufin eru óvenju snemma á ferðinni.

Á Akureyri hafa þau undur og stórmerki átt sér stað að gróður er farinn að grænka milli jóla og nýárs. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir að óvenju hlýtt hafi verið í bænum síðustu daga og nokkrir runnar farnir að grænka örlítið.

Ásthildur segir að í dag sé hiti við frostmark, en annars sé veðrið ofboðslega milt og yndislegt.

Á aðfangadag hafi mælirinn heima hjá henni sýnt fimmtán stig.

„Það var alveg svakalega hlýtt hérna á aðfangadagskvöld, en svakalega hvasst. Nágranni minn sló grasið á jóladag, en ég held að það hafi nú verið meira til gamans gert,“ segir hún.

Í dag hafi hún séð nokkur lauf að villast á runnum í kringum hana.

„Hér er maður bara í vorverkunum, að sópa og hreinsa til þangað til næsta úrkomubelti kemur,“ segir hún.

Ásthildur á ekki endilega von á að laufin séu komin til að vera fram að vori, en hún vonar að það snjói vel til fjalla næstu vikurnar. 

„Ég ætla vona að það snjói í fjallinu, en það má alveg sleppa því að snjóa í byggð. Það er þægilegra fyrir fólk, það má alveg vera falleg föl fyrir, en ekki of mikið,“ segir Ásthildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×