Enski boltinn

Liverpool-skotmarkið ekki á förum í janúar

Sindri Sverrisson skrifar
Marc Guehi er afar eftirsóttur.
Marc Guehi er afar eftirsóttur. Getty/Vince Mignott

Búist er við því að Marc Guehi, fyrirliði Crystal Palace, verði áfram hjá félaginu fram til næsta sumars, þegar samningur hans við félagið rennur út.

Þetta segir BBC í dag og fullyrðir að þrátt fyrir þann mikla áhuga sem sé á Guehi þá sé ekki útlit fyrir það, að svo stöddu, að hann verði seldur í janúar.

Miðillinn segir þó að mörg stórlið séu með Guehi í sigtinu. Minnstu munaði að hann endaði hjá Liverpool síðasta sumar, þegar félagið komst að samkomulagi við Palace um 35 milljóna punda verðmiða, en Palace mistókst að finna staðgengil fyrir Guehi og ákvað því að halda þessum 25 ára gamla enska landsliðsmiðverði.

BBC bendir á að strax um áramótin megi Guehi gera samning við nýja vinnuveitendur um að koma næsta sumar og nefnir að Bayern München, Real Madrid, Barcelona, Atlético Madrid og Inter hafi öll sýnt áhuga. 

Á Englandi eru það svo Liverpool og Manchester City sem sérstaklega eru sögð áhugasöm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×