Fótbolti

Salah sakaður um dýfu: „Getum ekki keppt við Egypta og dómarana“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Salah skoraði sigurmarkið úr víti sem hann fiskaði sjálfur.
Salah skoraði sigurmarkið úr víti sem hann fiskaði sjálfur. Stringer/Anadolu via Getty Images

Það virðist sem tveir aðilar í heiminum hafi fundist Khuliso Mudau brjóta á Mohamed Salah í leik Suður-Afríku við Egyptaland í Afríkukeppninni í gær. Því miður fyrir þá suðurafrísku voru það dómari leiksins og VAR-dómarinn.

Svo segir í umfjöllun The Athletic um leik Egypta við Suður-Afríku í Afríkukeppninni í fótbolta í gær. Mohamed Salah skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri Egypta en hann fiskaði sjálfur vítið þegar Mudau slæmdi hendi í andlit hans og Salah féll við.

Flestir virðast sammála um að ekki hafi verið um brot að ræða. Þjálfari þeirra suður-afrísku var æfur eftir leik.

„Meira að segja Mo Salah sagði við mig eftir leikinn að hann hafi verið hissa yfir því að dómarinn hafi dæmt vítaspyrnu. Þetta var algjörlega fáránlegt,“ sagði Hugo Broos, þjálfari þeirra suðurafrísku.

Steven Pienaar, landsliðsmaður Suður-Afríku til margra ára, var litlu ánægðari.

„Vel gert Bafana Bafana (viðurnefni suðurafríska liðsins), en við getum ekki spilað gegn bæði Egyptalandi og dómurunum,“ sagði Pienaar á samfélagsmiðlinum X.

Egyptaland er öruggt áfram í 16-liða úrslit keppninnar eftir sigurinn en liðið vann Simbabve 2-1 þökk sé marki Salah í uppbótartíma í fyrsta leik. Suður-Afríka er með þrjú stig í öðru sæti riðilsins.

Egyptar mæta Angóla í lokaleiknum eftir tvo daga en Suður-Afríkumenn mæta Simbabve.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×