Sport

Má mæta í bláum galla­buxum: „Skáksambandið gerir bara það sem Magnus biður um“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Magnus Carlsen mun ekki fá sekt aftur ef hann mætir í bláum gallabuxum.
Magnus Carlsen mun ekki fá sekt aftur ef hann mætir í bláum gallabuxum.

Bláar gallabuxur Magnusar Carlsen á heimsmeistaramótinu í at- og hraðskák á síðasta ári ollu miklu fjaðrafoki en breyttar reglur verða í gildi á mótinu í ár.

Fataval fimmfalda heimsmeistarans á mótinu í fyrra varð til þess að hann hætti keppni eftir að hafa fengið sekt fyrir að tefla í gallabuxum.

Carlsen sneri síðan aftur til keppni á mótinu nokkrum dögum síðar eftir samtal við forseta alþjóða skáksambandsins, í glænýjum bláum gallabuxum.

Nú hefur reglum sambandsins verið breytt og gallabuxur eru leyfðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Buxurnar verða að vera bláar, gráar eða svartar og mega ekki vera rifnar eða tættar. Þær skal svo klæða upp með hnepptri skyrtu.

„Þetta skiptir mig í alvöru ekki svona miklu máli en það er gott að reglurnar séu aðeins slakari“ sagði Magnus Carlsen þegar norska ríkisútvarpið leitaði viðbragða.

„Mér finnst að almennt ættu keppendur að klæða sig upp fyrir heimsmeistaramótið, vera snyrtilegir til fara, og ég mun alltaf standa við það að ég hafi verið þannig á síðasta ári“ bætti hann svo við en vildi ekki gefa upp hvort hann myndi mæta í gallabuxum til Doha í Katar þar sem mótið mun fara fram.

Bara breytt til að þóknast einni manneskju

Reglubreytingin kemur samlanda hans, skákmanninum Johan-Sebastian Christiansen, alls ekki á óvart.

„Mjög augljóslega er verið að breyta reglunum til að þóknast einni manneskju, skáksambandið gerir bara það sem Magnus biður um. Hann gæti hafa sagt að hann myndi bara mæta á mótið ef hann fengi að vera í náttfötum og sambandið hefði leyft það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×