Sport

Kansas frá Kansas til Kansas

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það er spurning hvort Patrick Mahomes verði enn leikmaður Chiefs þegar liðið flytur fyrir fylkismörk árið 2031.
Það er spurning hvort Patrick Mahomes verði enn leikmaður Chiefs þegar liðið flytur fyrir fylkismörk árið 2031. Amy Kontras/Getty Images

Kansas City Chiefs í NFL-deildinni flytja milli fylkja á komandi árum. Til stendur að reisa nýjan völl í Kansas-fylki árið 2031 og flytja frá Kansas-borg í Missouri.

Langt ferli er að baki þar sem til skoðunar hefur verið að gera upp Arrowhead-völlinn í Missouri eða að flytja á nýjan og lokaðan nútímavöll í Kansas. Talið er að bygging nýja vallarins muni kosta um þrjá milljarða bandaríkjadala en enduruppbygging Arrowhead hefði kostað um einn milljarð í samanburði.

David Toland, varafylkisstjóri Kansas, segir um að ræða stærsta „efnahagslega sigur í sögu Kansas“ og bætir við að fylkið verði alþjóðlegur áfangastaður íþrótta og skemmtunar.

„Chiefs eru hluti af því sem við erum sem Kansasbúar, og núna verða þeir enn stærri hluti framtíðar okkar fyrir komandi kynslóðir,“ bætir hann við.

Kansas-borg í Missouri, þar sem Arrowhead-völlurinn er staðsettur, liggur nærri fylkislínum við Kansas-fylki. Arrowhead er á meðal sögufrægari völlum NFL-deildarinnar og var byggður árið 1972. Aðeins Soldier Field, leikvangur Bears í Chicago og Lambeau Field, heimavöllur Green Bay Packers, eru eldri.

Leigan Chiefs á Arrowhead rennur út í janúar 2031 og því er útlit fyrir að liðið spili heimaleiki sína á vellinum út árið 2030. Síðan færi liðið sig um ekki nema 32 kílómetra, yfir fylkismörkin, á nýja völlinn sem verður reistur í Wyandotte-sýslu.

Þetta er í annað skiptið á áratug sem Missouri missir NFL-lið frá fylkinu. St. Louis Rams fluttu til Los Angeles árið 2016 eftir 21 ár í St. Louis í fylkinu.

Chiefs hafa leikið í Kansas City frá árinu 1963 þegar þáverandi eigandi, Lamar Hunt, flutti Dallas Texans norður á bóginn og endurskýrði liðið höfðingjana.

Forráðamenn hjá Chiefs hafa verið með vallarmálin til skoðunar um hríð þar sem skattamál í Missouri hafa áhrif. Töluvert betri kjör bjóðist í Kansas og þá er vonast til að nýi völlurinn, sem verður yfirbyggður, auki tekjur liðsins til muna og opni einnig á möguleikann á því að félagið haldi Super Bowl.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×