Sport

Tryllti lýðinn og ærði and­stæðinginn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Leonard Gates sýndi sínar bestu hliðar áður en keppni dagsins hófst. Hann var öllu slakari eftir að hún hófst - en komst þó áfram.
Leonard Gates sýndi sínar bestu hliðar áður en keppni dagsins hófst. Hann var öllu slakari eftir að hún hófst - en komst þó áfram. John Walton/PA Images via Getty Images

Bandaríkjamaðurinn Leonard Gates var maður dagsins á HM í pílukasti, í það minnsta hingað til. Hann vann sinn fyrsta sjónvarpsleik í slétt ár og komst áfram eftir veglega danssýningu.

Leonard Gates vakti mikla lukku þegar hann mætti til leiks í fyrri keppnishluta dagsins á HM í pílukasti. Gates ber viðurnefnið Soulger og mætti til leiks dansandi fyrir allan peninginn við sálartónlist, setti upp skíðagleraugu og fékk alla stúkuna með sér í lið frá byrjun.

Hans beið strembið verkefni gegn reynsluboltanum Mickey Mansell sem er frá Norður-Írlandi og var sá óvinsælli hjá enskum áhangendum í salnum, sem bauluðu reglulega á Mansell.

Gates er skautlegur spilari og eru fáir sem eiga eins mikil samskipti við aðdáendur í salnum á meðan keppni stendur. Hann fékk fólk ítrekað á fætur eftir góðar heimsóknir og steig aftur góðan dans eftir að hafa unnið fyrsta settið.

Mansell tókst að vinna annað settið til að jafna leikinn 1-1 og þaggaði þá niður í USA öskrum fólks í stúkunni. Hinn almennt nokkuð litlausi Mansell fagnaði meira eftir það sett en sést hefur lengi og var bersýnilegt að hann hafði lítinn húmor fyrir látalátunum í andstæðingi sínum.

Leikurinn var almennt heldur gæðalítill. Gates komst 2-1 yfir í settum áður en Mansell jafnaði í 2-2 og knúði fram oddasett.

Mistökin voru mörg á báða bóga. Fyrsti leggur í fjórða setti var á meðal þeirra vandræðalegri sem sést hafa á sviðinu í Alexandra Palace. Mansell kláraði legginn með því að skjóta út tvöfaldan einn eftir að þeir félagar höfðu klúðrað hverju útskotinu á fætur öðru.

Gates kom aftur á móti til baka og fagnaði sigri, 3-2 í settum talið. Aftur steig hann stríðsdans og setti upp brillurnar. Ljóst er að Bandaríkjamaðurinn naut augnabliksins til hins ítrasta.

Enda um að ræða fyrsta sigur hans í sjónvarpaðri keppni síðan á sama stað heimsmeistaramótsins fyrir sléttu ári síðan. Og ljóst er af spilamennsku hans að sigrarnir verða að líkindum ekki mikið fleiri að sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×