Síminn greindi frá kaupunum á Opnum Kerfum (OK) og Öryggismiðstöð Íslands (ÖMÍ) laust eftir miðnætti í nótt en þar kom fram að samanlagt heildarvirði (e. enterprise value) fyrirtækjanna í viðskiptunum sé 13.750 milljónir króna að viðbættum leiguskuldbindingum sem eru áætlaðar um 1.000 milljónir króna. Endanlegt kaupverð til greiðslu ræðst þó meðal annars af stöðu hreinna vaxtaberandi skulda og veltufjármuna á viðmiðunardegi uppgjörs.
Innherji hafður áður greint frá því, eins og kom fram í frétt síðastliðinn mánudag, að Síminn væri að ganga frá kaupum á öllu hlutafé Opinna Kerfa. Samkvæmt heimildum var ráðgert að kaupverðið myndi nema á fjórða milljarð króna og yrði greitt að stórum hluta með bréfum í Símanum.
Í tilkynningunni til Kauphallarinnar segir að kaupin verði fjármögnuð með hlutafé í Símanum, lánsfé frá Arion banka og handbæru fé. Miðað er við að um 6.125 milljónir króna verði greiddar með afhendingu á liðlega 428 milljón hlutum að nafnvirði – en það jafngildir því að seljendur muni eignast um fimmtán prósenta hlut í Símanum. Þeir hafa skuldbundið sig til að eiga þau bréf að lágmarki í tvö ár eftir að kaupin klárast.
Hlutabréfaverð Símans hefur hækkað lítillega í ríflega 50 milljóna veltu á markaði í morgun og stendur núna í 14,7 krónum á hlut. Markaðsvirði Símans nemur um 35 milljörðum.
Verði af viðskiptunum og miðað við að forsendur Símans um samlegð gangi eftir er áætlað að veltan aukist um sextán milljarða og EBITDA-hagnaður um 2,3 milljarða á ársgrundvelli þegar samlegðaráhrif eru að fullu komin fram. Gera má ráð fyrir að árleg fjárfestingarþörf aukist að sama skapi um 400 til 500 milljónir króna.
Gangi kaupin eftir, sem eru meðal annars háð skilyrðum um samþykki Samkeppniseftirlitsins og samþykki hlutafundar Símans á komandi vikum, þá er áætlað að tekjur samstæðunnar verði um 48 milljarðar króna og EBITDA hátt í 10 milljarðar króna á ársgrundvelli. Þær áætlanir ná einnig til kaupanna á Greiðslumiðlun Íslands sem tilkynnt var um í lok október.
Öryggismiðstöðin hefur vaxið talsvert hratt á undanförnum árum en í fyrra námu heildartekjur félagsins um 10,5 milljörðum króna og EBITDA-hagnaðurinn var rétt yfir einn milljarður. Greiddur var út arður til hluthafa að fjárhæð 650 milljónir vegna afkomu síðasta árs. Á síðasta ári námu tekjur upplýsingatæknifyrirtækisins OK af seldum vörum og þjónustu samtals ríflega 6,5 milljarðar króna. EBITDA-hagnaðurinn var á sama tíma um 540 milljónir og jókst um meira en tuttugu prósent milli ára.
Stærstu eigendur beggja fyrirtækja er framtakssjóðurinn VEX I í rekstri samnefnds fyrirtækis en hann kom að fjárfestingu í þeim annars vegar í árslok 2021 og hins vegar um sumarið 2023. Sjóðurinn ræður yfir nærri 58 prósenta hlut í Opnum Kerfum og fer með um 45 prósenta hlut í Öryggismiðstöðinni. Samkvæmt ársreikningi var eignarhluturinn í ÖMÍ verðmetinn á tæplega 2,5 milljarða í árslok 2024 í reikningi félagsins hjá VEX sem heldur utan um hann.
Aðrir helstu eigendur Opinna Kerfa er félagið Fiskisund með 23 prósenta hlut og Eskimo Rental með um 13 prósent hlut en það er í eigu Kristins Elvars Arnarsonar. Eigendur Fiskisunds eru fjárfestarnir Einar Örn Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Play, Kári Þór Guðjónsson, sem er núna formaður stjórnar Opinna Kerfa, og Halla Sigrún Hjartardóttir.
Til viðbótar við VEX eru aðrir stærstu eigendur Öryggismiðstöðvarinnar félög í eigu Hjörleifs Jakobssonar og eiginkonu hans Hjördísar Ásberg og síðan félag Ragnars Þór Jónsson, forstjóra fyrirtækisins til nærri tveggja áratuga.
Kaupin eru stórt skref í vaxtarvegferð samstæðunnar og greiða leið nýrra tækifæra.
María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, segir í tilefni kaupanna að þau séu „stórt skref í vaxtarvegferð“ samstæðunnar og muni greiða leið nýrra tækifæra. Stefnt er að því að bæði ÖMÍ og OK muni starfa sem sjálfstæðar einingar innan þess breyta skipulags samstæðunnar sem á að taka gildi á fyrri hluta næsta árs.
„OK hefur verið í miklum vexti, en líkt og Síminn á félagið langa sögu og hefur verið brautryðjandi í upplýsingatækni um árabil. Með kaupunum breikkar vöruframboð samstæðunnar á fyrirtækjamarkaði, en framúrskarandi vörur, viðskiptasambönd og starfsfólk OK opna þar á fjölmörg ný sóknarfæri. Undanfarið hefur OK aukið vægi þjónustutekna í rekstrinum með öflugri vöruþróun, þar sem þjónustuleiðin „Stafrænt faðmlag“ hefur spilað lykilhlutverk til viðbótar við öflugar netöryggislausnir o.fl. Þá gerir áralangt viðskiptasamband við HP félaginu kleift að bjóða fyrsta flokks notendabúnað sem er þekktur alþjóðlega fyrir gæði og öryggi,“ segir María Björk.
Þegar kemur að kaupunum á Öryggismiðstöðinni þá bendir hún á að félagið hafi sýnt mikla seiglu undanfarin ár í að skapa ný tækifæri við síbreytilegar aðstæður í samfélaginu. „Má því segja að við séum að kaupa árangursdrifna menningu vaxtar, ekki síður en einstakar vörur. Félagið hefur einnig stigið áhugaverð skref inn á markað fyrir heilbrigðis- og velferðarþjónustu og er vel í stakk búið til að styðja við heilbrigðiskerfið í nýjum áskorunum vegna öldrunar þjóðarinnar.“
Slitnaði upp úr samrunaviðræðum við Daga fyrr á árinu
Hugmyndir um samruna Öryggismiðstöðvarinnar við eitthvert af fjarskiptafyrirtækjunum hafa verið uppi í talsverðan tíma. Fyrr á þessu ári, samkvæmt heimildum Innherja, var félagið hins vegar langt komið í viðræðum um sameiningu við Dagar sem er þjónustufyrirtæki í fasteignaumsjón, ræstingum og hreingerningum. Upp úr þeim slitnaði á meðan áreiðanleikakönnunarferli stóð yfir.
Dagar eru að meirihluta í eigu Einars Sveinssonar fjárfestis og fjölskyldu en félagið velti um sjö milljörðum í fyrra og skilaði ríflega 500 milljóna EBITDA-hagnaði.

