Fótbolti

Brynjólfur með lang­þráð mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brynjólfur Willumsson fagnar marki sínu í kvöld því fyrsta í hollensku deildinni síðan í lok ágúst.
Brynjólfur Willumsson fagnar marki sínu í kvöld því fyrsta í hollensku deildinni síðan í lok ágúst. Getty/COR LASKER

Íslenski landsliðsframherjinn Brynjólfur Willumsson skoraði annað mark Groningen í kvöld í góðum 3-0 heimasigri á Volendam í hollensku deildinni.

Þetta var mjög langþráð mark hjá Brynjólfi því hann hafði ekki skorað í sjö leikjum í röð í deildinni.

Brynjólfur skoraði markið sitt á 74. mínútu eftir stoðsendingu frá Thom van Bergen en Stije Resink hafði komið heimamönnum í 1-0 á 38. mínútu. Brynjólfur fór af velli strax eftir markið.

Groningen bjó að því að vera manni fleiri frá 28. mínútu þegar Mawouna Amevor fékk beint rautt spjald.

Þriðja mark liðsins skoraði Resink úr vítaspyrnu undir lok leiksins.

Síðasta mark Brynjólfs á undan þessu kom í sigri á Heracles Almelo í lok ágúst. Brynjólfur skoraði fimm mörk í fyrstu fjórum leikjunum og var þá markahæsti maður deildarinnar.

Síðan þá hefur ekkert gengið hjá honum upp við markið en hann meiddist í landsliðsverkefni og missti af leikjum eftir það.

Brynjólfur var í byrjunarliði í dag og er vonandi búinn að finna skotskóna á ný.

Groningen fór upp í fimmta sætið með þessum sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×