Innlent

Vilja tak­marka fjölda barna sem getin eru með sama sæði

Agnar Már Másson skrifar
Engin takmörk eru fyrir því hversu mörg börn mega vera getin með sæði frá sama sæðisgjafa.
Engin takmörk eru fyrir því hversu mörg börn mega vera getin með sæði frá sama sæðisgjafa. Vísir/Getty

Tilvera, samtök um ófrjósemi, krefjast þess að takmörk séu sett um fjölda barna á hvern sæðis- eða eggjagjafa í ljósi þess að tæplega tvö hundruð börn hafi verið getin með sæði manns sem hafði hættulegan genagalla.

Samtökin sendu í dag út tilkynningu í ljósi frétta af því að 197 börn í Evrópu, og þar á meðal 4 á Íslandi, hefðu verið getin með gjafarsæði manns sem hafði lífhættulega genastökkbreytingu sem kann að valda krabbameini. Maðurinn hefur verið kallaður Kjeld en hann gaf Evrópska sæðisbankanum í Kaupmannahöfn sæði sitt árið 2005 og var það sent til fjórtán landa. Að minnsta kosti eitt af þessum tvö hundruð börnum er nú látið.

Samtökin lýsa stuðningi við sameiginlega yfirlýsingu siðaráða skandínavísku landanna frá í apríl, þar sem kallað er eftir alþjóðlegri reglusetningu sem takmarkar fjölda barna sem geta orðið til frá sama sæðis- eða eggjagjafa.

Í dag eru engar lagalegar takmarkanir á fjölda barna sem getin eru með gjafafrumum frá hverjum gjafa. Samtökin segja að dæmi séu frá erlendum sæðis- og eggjabönkum að á bilinu 25-75 fjölskyldur hafi fengið frá einum og sama gjafanum.

Samtökin taka þá undir ákall siðaráða norrænu ófrjósemissamtakanna og krefjast þess þá að alþjóðlegt lögbundið hámark verði sett á fjölda fjölskyldna sem nýtt geti gjafafrumur frá einum og sama gjafanum óháð landamærum, með hliðsjón af aukinni notkun gjafafruma yfir landamæri. 

Einnig gera þau kröfu um aukið gagnsæi gagnvart bæði gjöfum og fólki sem þiggur gjafafrumur, þar á meðal fulla upplýsingagjöf um landsbundin og alþjóðleg hámörk áður en gjöf eða meðferð fer fram.

Þá vilja samtökin að sæðis- og eggjabankar setji þegar tímabundið hámark þar til slíkt hámark hefur verið bundið í lög, og að frumugjafar eigi rétt á að ákveði sjálfir hámark gjafa sem er lægra en bankinn gefur upp. Þá gera þau kröfu um aðgang að viðeigandi sálfræðiráðgjöf fyrir einstaklinga sem getnir eru með frumugjöfum, fjölskyldur þeirra sem og gjafa. Markmiðið sé ekki að hefta æxlunarfrelsi, heldur að gæta að velferð og vellíðan allra sem koma að getnaði barns með aðstoð gjafafruma.  

Samtökin telja að Norðurlöndin og Evrópa í heild sinni verði að sameinast um að bregðast við þessum áskorunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×