Innlent

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2025

Atli Ísleifsson skrifar
Ólöf Tara Harðardóttir, Friðrik Ólafsson, Gylfi Ægis, Lalli Johns og Anna Kristín Arngrímsdóttir féllu öll frá á árinu sem senn líður undir lok.
Ólöf Tara Harðardóttir, Friðrik Ólafsson, Gylfi Ægis, Lalli Johns og Anna Kristín Arngrímsdóttir féllu öll frá á árinu sem senn líður undir lok. Vísir

Fjölmargir þjóðþekktir Íslendingar kvöddu á árinu 2025 sem senn líður undir lok.

Í hópi þeirra sem létust á árinu má meðal annars nefna fjölda landskunnra tónlistarmanna, alþingismenn, framámenn úr viðskiptalífinu og eina þekktustu baráttukonu landsins gegn kynbundnu ofbeldi og fyrsta stórmeistara landsins í skák.

Vísir tók saman nokkur nöfn sem Íslendingum ættu að vera kunnug, en þegar hefur birst frétt um fræga einstaklinga úti í heimi sem féllu frá á árinu.

Stjórnmál, fjölmiðlar, kirkjan, félagsstörf og fleira

Birna Óladóttir, húsmóðir í Grindavík, lést í september 84 ára gömul. Birna var mikill Grindvíkingur eftir að hafa flust þangað sautján ára og vakti athygli í fjölmiðlum á miklum umbrotatímum í bæjarfélaginu þegar jarðskjálftar dundu á Grindvíkingum í Reykjaneseldum hinum síðari.

Björn Dagbjartsson , verkfræðingur og fyrrverandi sendiherra og alþingismaður, lést í desember, 88 ára að aldri.Björn var alþingismaður Norðurlands eystra fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1984 til1987.

Ellert B. Schram , fyrrverandi alþingismaður, ritstjóri, rithöfundur og knattspyrnumaður, lést í janúar, 85 ára að aldri. Ellert var stórstjarna í KR og íslenska landsliðinu í fótbolta. Hann var þingmaður Reykjavíkur fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1971 til 1979, 1983 til 1987. Á árunum 2007 til 2009 sat hann svo á þingi fyrir Samfylkinguna.

Flosi Magnússon , fyrrverandi prófastur og sveitarstjóri á Bíldudal, lést á sjúkrahúsi í Lundi í Svíþjóð þann 11. október síðastliðinn.

Halldór Blöndal árið 2019. Vísir/Vilhelm

Halldór Blöndal , fyrrverandi þingmaður, ráðherra og forseti Alþingis, lést í desember, 87 ára að aldri. Halldór sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn frá 1979 til 2007, var landbúnaðar- og samgönguráðherra 1991–1995 og samgönguráðherra 1995–1999, auk þess að gegna embætti forseta Alþingis 1999–2005.

Harpa Elín Haraldsdóttir , forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal, lést í nóvember, 45 ára að aldri.

Jóhannes Valgeir Reynisson , einnig þekktur sem Blái naglinn, lést í september, 72 ára gamall. Jóhannes Valgeir vakti athygli árið 2012 þegar út kom heimildarmyndin Blái naglinn sem fjallar um baráttu Jóhannesar við blöðruhálskrabbamein.

Kristján Þ. Jónsson, skipherra hjá Landhelgisgæslunni sem meðal annars sigldi gegn flota Breta í þorskastríðunum, lést í nóvember, 77 ára að aldri.

Lalli Johns , réttu nafni Lárus Björn Svavarsson, lést í maí, 74 ára gamall. Árið 2001 varð Lárus landsþekktur eftir frumsýningu heimildarmyndar Þorfinns Guðnasonar heitnis sem fjallaði um Lalla Johns og líf hans. Í myndinni segir hann opinskátt af lífi sínu sem fíkill og smáglæpamaður og draumnum um að losna undan slíku líferni.

Magnús Finnsson, fyrrverandi blaðamaður, fréttastjóri og fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, lést í apríl, 85 ára að aldri.

Magnús Þór Hafsteinsson , fyrrverandi þingmaður, blaðamaður og sjómaður, lést í júní þegar bátur hans sökk út af Patreksfirði. Hann var 61 árs. Magnús Þór settist á þing árið 2003 sem þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi og var formaður þingflokksins árin 2004 til 2007.

Mar­grét Hauks­dótt­ir , hús­móðir og fyrrverandi ráðherra­frú, lést í maí, sjötíu ára að aldri. Margrét vann ým­iss kon­ar þjón­ustu- og umönn­un­ar­störf á Sel­fossi og í Reykja­vík á fyrri árum og fylgdi síðar eig­in­manni sín­um, Guðna Ágústsyni, í embætt­is­störf­um hans.

Ólöf Tara Harðardóttir , baráttukona og þjálfari, lést í janúar, 34 ára að aldri. Hún stofnaði samtökin Öfga og Vitund og var kraftmikil í baráttu gegn kynbundu ofbeldi.

Sigurður Helgason, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Umferðarráðs, lést í apríl sjötugur að aldri.

Steingrímur Stefánsson , leiðsögumaður í Laxá í Aðaldal og betur þekktur sem Steini frá Straumnesi, lést í júní 56 ára gamall. Steini var í 38 ár ómissandi hluti af lífi og starfi við Laxá í Aðaldal sem er ein frægasta og vinsælasta laxveiðiá landsins.

Vig­fús Þór Árna­son , fyrrverandi sókn­ar­prest­ur á Sigluf­irði og í Grafar­vogi, lést í febrúar, 78 ára að aldri. Vig­fús Þór var vígður sókn­ar­prest­ur við Siglu­fjarðarprestakall 1976 og þjónaði þar um ára­bil. Hann var kjörinn fyrsti sókn­ar­prest­ur í Grafar­vog­sprestakalli árið 1989 og þjónaði þar uns hann lét af störf­um sök­um ald­urs árið 2016.

Yrsa Þórðardóttir prestur lést í september, 63 ára að aldri. Hún starfaði meðal annars sem prestur á Fáskúðsfirði og í Digraneskirkju í Kópavogi, en einnig sem sóknarprestur í Strasbourg í Frakklandi á árunum 2011 til 2014. Þá flutti hún til Sviss þar sem hún starfaði sem prestur í frönskumælandi hluta landsins og í afleysingum í þeim þýskumælandi. Frá árinu 2021 varð hún sóknarprestur í Morges og sinnti því embætti þangað til hún fór í leyfi sökum heilsubrests á þessu ári.

Þorleifur Kamban Þrastarson , hönnuður og listamaður, lést í nóvember, 43 ára að aldri.

Þórhildur Magnúsdóttir , sem bar titilinn elsti Íslendingurinn í þrjú ár, lést í desember, 107 ára gömul. Hún hefði orðið árinu eldri þann 22. desember.

Menning og listir

Agnes Johansen , kvikmyndaframleiðandi og einn af lykilframleiðendum RVK Studios, lést í maí, 66 ára að aldri.

Anna Kristín Arngrímsdóttir leikkona lést í mars, 76 ára að aldri. Anna Kristín kom fram í fjölda leiksýninga, meðal annars í Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu og á ferlinum lék hún í meira en hundrað útvarpsverkum auk kvikmynda- og sjónvarpsverkefna.

Ásgeir H. Ingólfsson , blaðamaður og skáld, lést af völdum krabbameins í janúar, 48 ára að aldri. Ásgeir starfaði við ýmislegt svo sem blaðamennsku, kennslu, þýðingar, textavinnu og skrif. Þekktastur er hann þó fyrir menningarblaðamennsku sína og gagnrýni.

Bjarni Hjaltested Þórarinsson listamaður, sem iðulega var kallaður dr. Bjarni, lést í maí, 78 ára gamall.

Bylgja Dís Gunnarsdóttir , formaður Kyrrðarbænarsamtakanna á Íslandi og sópransöngkona, lést í september eftir erfið veikindi. Hún var 52 ára gömul.

Gunnlaugur Reynisson , tónlistarmaður þekktur sem Gulli Reynis, lést í nóvember, 59 ára að aldri. Gunnlaugur var vinsæll trúbador á skemmtistöðum um árabil.

Gylfi Viðar Ægisson , einn afkastamesti tónlistarmaður og lagahöfundur Íslandssögunnar, lést í júlí, 78 ára að aldri. Meðal þekktra laga Gylfa voru Jibbý jei, sem hljómsveitin Svanfríður flutti og Minning um mann, sem Logar frá Vestmannaeyjum gáfu út. Þá samdi hann Þjóðhátíðarlagið árið 1974, Eyjan mín bjarta. Gylfi, í slagtogi við sjálfan Rúnar Júlíusson og fjölda landsþekktra listamanna, stofnaði árið 1980 hljómsveitina Áhöfnin á Halastjörnunni, en sveitin gaf út eitt vinsælasta lag Gylfa, Stolt siglir fleyið mitt.

Helgi Guðmundsson, rithöfundur, trésmiður og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, lést í ágúst, 81 árs að aldri. Hann ritstýrði Þjóðviljanum á árunum 1990 til 1992.

Helgi Pétursson , tónlistarmaður, fjölmiðlamaður, fyrrverandi borgarfulltrúi og baráttumaður fyrir málefnum eldri borgara, lést í nóvember, 76 ára að aldri. Helgi stofnaði hljómsveitina Ríó Tríó ásamt félögum sínum árið 1965 en Helgi spilaði á kontrabassa í sveitinni og söng.

Helgi Vilberg Hermannsson , listamaður og skólastjóri Myndlistaskólans á Akureyri, lést í ágúst, 73 ára að aldri.

Jón Ásgeirsson , eitt ástsælasta tónskáld Íslands, lést í nóvember, 97 ára að aldri. Jón samdi meðal annars fyrstu íslensku óperuna og einnig lagið undir Maístjörnuna.

Jón Magnússon  götulistamaður lést í september, 65 ára að aldri. Hann var þekktur undir listamannsnafninu Jójó og var þekktur fyrir að spila á gítar og syngja fyrir gesti og gangandi í Austurstræti á kvöldin og um helgar og var oft nefndur trúbador götunnar.

Jónas Ingimundarson píanóleikari lést í mars, áttræður að aldri. Tónlistarferill hans spannaði yfir fimmtíu ár og markaði djúp spor í íslensku tónlistarlífi. Hann var ekki aðeins virtur píanóleikari heldur einnig kórstjóri, kennari og ötull kynningarfulltrúi tónlistar.

Kristján Guðmundsson myndlistarmaður lést í nóvember, 84 ára að aldri. Hann var sjálflærður myndlistarmaður og einn stofnenda Gallerís SÚM. Hópurinn að baki SÚM olli straumhvörfum í íslenskri myndlistarsenu á sjöunda áratugnum.

Magnús Elías Guðmundsson , blaða- og kvikmyndagerðarmaður, lést í nóvember, 71 árs að aldri. Magnús vakti fyrst alþjóðaathygli þegar hann gerði heimildarmyndina Lífsbjörg í Norðurhöfum árið 1989.

Orri Harðarson , tónlistarmaður og rithöfundur, lést í júní, 52 ára að aldri. Orri kenndi sig ætíð við Akranes en fór víða og var meðal annars kjörinn bæjarlistamaður á Akureyri 2017.

Sigurður Björnsson , tenór og einn þekktasti óperusöngvari landsins, lést í ágúst, 93 ára að aldri. Sigurður var árið 1991 sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir störf sín að tónlistarmálum.

Stefán Jónsson söngvari lést í september, 82 ára að aldri. Stefán var einn af fyrstu rokksöngvurum Íslands og er þekktastur fyrir að syngja með hljómsveitinni Lúdó, sem hann var iðulega kenndur við.

Steindór Andersen , einn þekktasti kvæðamaður samtímans, lést í apríl, sjötugur að aldri. Hann átti stóran þátt í að endurvekja og kynna rímnahefðina fyrir nýjum áheyrendum.

Viðskipta- og athafnafólk

Áslaug Sigríður Alfreðsdóttir , fyrrverandi hótelstjóri og brautryðjandi í uppbyggingu ferðaþjónustu, lést í ágúst, 75 ára að aldri.

Bjarni Geir Alfreðsson matreiðslumaður lést í október, 74 ára að aldri. Bjarni, sem gekk undir nafninu Bjarni Snæðingur, var frumkvöðull á sviði veitingarekstrar og starfaði meðal annars á Naustinu, Aski, Fljótt og Gott á BSÍ þar sem hann bauð meðal annars upp á „kjamma og kók“, auk þess að hann var viðloðandi Kaffistofu Samhjálpar.

Björgólfur Guðmundsson , athafnamaður og fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans, lést í febrúar, 84 ára að aldri. Á ferli sínum var hann meðal annars forstjóri Dósagerðarinnar og Hafskips, en árið 1995 gerist hann stjórnarmaður í Bravo Ltd. í Pétursborg í Rússlandi sem hann stofnaði meðal annars í félagi við son sinn Björgólf Thor. Björgólfsfeðgar og Magnús Þorsteinsson fjárfestir keyptu svo um helmingshlut í Landsbankanum árið 2003 þegar bankinn var einkavæddur og tók Björgólfur þá við formennsku í bankaráði bankans og gegndi stöðunni allt fram að falli bankans.

Brynjólfur Bjarna­son forstjóri lést í apríl, 78 ára að aldri. Brynjólfur var framkvæmdastjóri Almenna Bókafélagsins AB frá 1976–1983, og árið 1984 tók hann við starfi framkvæmdastjóra sjávarútvegsfyrirtækisins Granda og gegndi því til ársins 2002. Á árunum 2002–2010 var hann forstjóri fjarskiptafélagsins Símans/Skipta, og stýrði þar einkavæðingu Landsíma Íslands í Símann árið 2005. Árið 2012 tók hann við starfi framkvæmdastjóra Framtakssjóðs Íslands og gegndi því til ársins 2014. Hann var í stjórn Arion banka frá 2014-2024 og var stjórnarformaður bankans á árunum 2019-2024.

Grétar Br. Kristjánsson lögmaður lést í ágúst, 87 ára að aldri. Sem einn af lykilstjórnendum Loftleiða og síðar Flugleiða var hann einn valdamesti maður íslenska fluggeirans um áratugaskeið. Hann er sá sem lengst allra sat í stjórn Flugleiða, í 32 ár, þar af sem varaformaður stjórnar í 18 ár, en stóð þó jafnan utan sviðsljóssins.

Guðrún Björk Kristmundsdóttir , eigandi Bæjarins beztu, lést í september, 63 ára að aldri. Guðrún stýrði Bæjarins bestu pylsum um margra ára skeið og stækkaði fyrirtækið mikið í stjórnartíð hennar.

Haraldur Jóhannsson , einnig þekktur sem Halli í Nesi, lést í maí, 71 árs að aldri. Halli og eiginkona hans, Fjóla Guðrún Friðriksdóttir, stofnuðu heildverslunina Forval árið 1976. Fyrstu árin fluttu þau inn leikföng og gjafavöru og fylgihluti og færðu sig svo yfir í hár- og snyrtivörur. Forval var umboðsaðili fyrir fjölda þekktra snyrtivörumerkja og ilmhúsa auk þess að framleiða sínar eigin hárvörur.

Jóhanna Bára Sigurðardóttir, stofnandi Ísbúðar Vesturbæjar, lést í nóvember síðastliðinn, níutíu ára að aldri. Hún stofnaði ásamt eiginmanni sínum Ísbúð Vesturbæjar árið 1970 að Hagamel 67, og ráku hana í mörg ár.

Klara Baldursdóttir , betur þekkt sem Klara á Klörubar, lést í júní, 74 ára að aldri. Klara flutti til Spánar sumarið 1969 og aftur 1970 til lengri tíma. Hún kynntist Francisco Casadeus eiginmanni sínum árið 1971. Nokkrum árum síðar fluttu þau hjónin til Kanarí þar sem þau opnuðu barinn Cosmos en hann var ætíð kallaður Klörubar.

Oddný Sv. Björgvinsdóttir , framkvæmdastjóri, ritstjóri, blaðamaður, rithöfundur og ljóðskáld lést í október, áttatíu og fimm ára að aldri.

Stefán Þór Kristjánsson , útgerðarbóndi frá Grindavík, lést í ágúst, 61 árs að aldri. Stefán stofnaði útgerðarfyrirtækið Einhamar Seafood ásamt eiginkonu sinni, Söndru Antonsdóttur, í kringum aldamót og var fyrirtækið orðið á meðal öflugri smábátaútgerða landsins.

Skólar og vísindi

Anna Eðvaldsdóttir , betur þekkt sem Anna ljósa, lést í september, 66 ára að aldri. Hún var ein þekktasta ljósmóðir landsins, starfaði við fagið í tæpa þrjá áratugi og gaf út bækur með góðum ráðum fyrir verðandi og nýbakaða foreldra.

Birgir Guðjónsson , stærðfræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík, lést í apríl, 68 ára að aldri. Birgir spilaði fótbolta með KR á sínum yngri árum og hóf störf sem stærðfræðikennari við Menntaskólann í Reykjavík árið 1979 og vann þar í 44 ár.

Gestur Guðmundsson , félagsfræðingur, fræðimaður og rithöfundur, lést í september, 74 ára að aldri. Hann markaði djúp spor í íslenskt menningar- og fræðasamfélag.

Guðrún Hannesdóttir, félagsfræðingur og fyrrverandi menntaskólakennari og forstöðumaður Hringsjár, náms- og starfsendurhæfingar, lést í ágúst, 77 ára að aldri.

Haraldur Briem , fyrrverandi sóttvarnarlæknir og aðstoðarlandlæknir, lést í ágúst, 80 ára að aldri. Frá árs­byrj­un 1998 til 2015 var Haraldur sótt­varna­lækn­ir við embætti land­lækn­is.

Margrét Dóróthea Sigfúsdóttir , fyrrverandi skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, lést í febrúar, 77 ára að aldri. Hún varð svo skólastjóri Hússtjórnarskóla Reykjavíkur árið 1998 og gegndi því starfi til 2022 þegar hún hætti sökum aldurs.

Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur lést í apríl, 75 ára að aldri. Mjöll var einn af stofnendum Fornleifastofnunar Íslands árið 1995 og markaði í störfum sínum djúp spor í íslensku fræðasamfélagi um áratugaskeið.

Ragnheiður Torfadóttir , fyrrverandi rektor Menntaskólans í Reykjavík, lést í janúar, 87 ára að aldri. Hún varð rektor skólans árið 1995, fyrst kvenna, og gegndi stöðunni til ársins 2001.

Þorsteinn Vilhjálmsson , prófessor emeritus við Háskóla Íslands í eðlisfræði, lést í maí, 84 ára að aldri. Þorsteinn varð prófessor 1989 og forseti eðlisfræðideildar frá 1995 til 1997. Auk eðlisfræðinnar kenndi hann sögu og heimspeki vísinda. Hann hafði áhuga á tilhögun háskólakennslu og var formaður kennslumálanefndar Háskóla Íslands 1985 til 1992. Hann fór svo á eftirlaun 2010 en stundaði þó áfram rannsóknir og ritstörf.

Íþróttir

Friðrik Ólafsson , skákmeistari og fyrrverandi skrifstofustjóri Alþingis, lést í apríl níræður að aldri. Friðrik varð fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák 1958 en hann vann á ferli sínum fjölda skákmóta, bæði hér heima og erlendis. Friðrik starfaði víða, en sérstaklega má minnast á að hann var forseti Alþjóðaskáksambandsins frá 1978 til 1982 og skrifstofustjóri Alþingis frá 1984 til 2005.

Jón Otti Ólafs­son , prent­ari og einn öflugasti körfu­bolta­dóm­ari landsins um árabil, lést í fe­brú­ar síðastliðinn, 83 ára að aldri. Jón Otti hlaut gull­merki KKÍ og heiðursviðurkenn­ingu KR fyr­ir sín störf í þágu körfuknatt­leiks­ins og var val­inn dóm­ari ald­ar­inn­ar 2001.

Kristín Birna Garðarsdóttir, fyrrverandi Íslandsmeistari í akstursíþróttum, lést í janúar, 62 ára að aldri.

Magnús Kristinn Eyjólfsson , landsliðsþjálfari Íslands í kata, lést í ágúst 54 ára gamall. Magnús var ráðinn landsliðsþjálfari í kata árið 2011 og gegndi hlutverkinu til ársins 2017. Hann var svo ráðinn aftur í starfið árið 2022 og var starfandi landsliðsþjálfari þegar hann féll frá.

Viðar Símonarson , fyrrverandi landsliðsmaður og landsliðsþjálfari karla í handbolta, lést í júní, áttræður að aldri.

Örn Óskarsson, pípulagningameistari og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, lést í nóvember, 72 ára að aldri. Á ferli sínum spilaði hann meðal annars með ÍBV, Þrótti og Örgryte í Svíþjóð. Hann spilaði 23 landsleiki á árunum 1972 til 1982.

Samantektin var unnin upp úr andlátsfréttum sem birst hafa á Vísi og í Morgunblaðinu.


Tengdar fréttir

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2020

Fjöldi þjóðþekktra Íslendingar kvaddi á árinu sem senn er á enda. Í hópi þeirra eru meðal annarra einhver ástsælasti söngvari þjóðarinnar, einhver vinsælasti skemmtikraftur landsins, frumkvöðull á sviði líkamsræktar á Íslandi, fyrrverandi ráðherrar og höfundur bókanna um Maxímús Músíkús. Þá þögnuðu einhverjar af þekktustu útvarpsröddum landsins.

Þessir Ís­lendingar kvöddu á árinu 2018

Margir þjóðþekktir Íslendingar kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda, þar á meðal einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, heimsfrægt tónskáld, fyrrverandi ráðherra og eitt fremsta ljóðskáld þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×