Innlent

Tölu­vert við­bragð vegna neyðarsendis sem fór af stað fyrir slysni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Neyðarsendirinn var á svæði Keflavíkurflugvallar.
Neyðarsendirinn var á svæði Keflavíkurflugvallar. Vísir/Vilhelm

Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarskip voru kölluð út auk lögreglunnar á Suðurnesjum rétt fyrir klukkan tíu þegar tilkynning barst um merki frá neyðarsendi. Merkið reyndist koma frá persónulegum neyðarsendi sem var á svæði Keflavíkurflugvallar en það kviknaði á honum fyrir slysni.

Í samtali við fréttastofu segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, að kafbátaleitarflugvél breska flughersins hafi verið á flugi rétt út af Stafnesi á Reykjanesi þegar merki berst frá neyðarsendi.

Eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar hafði hringsólað yst á Reykjanesi kom í ljós að merkið kom frá Keflavíkurflugvelli. Um var að ræða persónulegan neyðarsendi sem fór af stað fyrir slysni. Í tilkynngu frá lögreglu var neyðarsendirinn í björgunarvesti sem var á flugvellinum.

Þyrlan hringsólaði yfir flugvellinum.ASD-B Exchange

„Það gerist stöku sinnum að svona gerist en það þarf alltaf að vera viðbragð til að ganga úr skugga um að allt sé í lagi,“ segir Ásgeir.

Hann brýnir að þegar tilkynning berst um slíkt sé alltaf farið af stað í viðbragð en engra var saknað. Erfitt sé að nákvæmlega staðsetja hvaðan slík merki koma.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum segir að með tilkynningu flughersins um neyðarsendinn fylgdi með að þeim fannst þeir sjá eitthvað í sjónum. Áhöfn fór beint í Sandgerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×