Formúla 1

Stórar breytingar og tíma­mót hjá Red Bull

Aron Guðmundsson skrifar
Helmut Marko ræðir hér við Max Verstappen, ökumann Red Bull Racing.
Helmut Marko ræðir hér við Max Verstappen, ökumann Red Bull Racing. Vísir/Getty

Helmut Marko, ráðgjafi Formúlu 1 liðs Red Bull Racing, mun láta af störfum undir lok árs eftir tuttugu ára feril hjá liðinu. 

Um tímamót er því að ræða bæði hjá Marko og Red Bull Racing en hann hefur verið mikilvægur hlekkur í sigursælli sögu liðsins allt frá stofnun þess árið 2005. 

Á sínum tíma hjá Red Bull Racing hefur liðinu tekist að vinna sex heimsmeistaratitla bílasmiða í Formúlu 1 mótaröðinni og þá hafa ökumenn liðsins átta sinnum orðið heimsmeistarar. 

Marko, sem er 82 ára gamall, var lýst á sínum tíma sem eins konar hægri hönd hins sáluga Dietrich Mateschitz, eins af eigendum Red Bull samstæðunnar og hefur tekið þátt í að þróa ökumenn liðsins en þeirra á meðal eru fjórföldu heimsmeistararnir Sebastian Vettel og Max Verstappen. 

Sjálfur á Marko að baki feril sem ökumaður í Formúlu 1 en þurfti að gefa þann feril upp á bátinn aðeins 29 ára gamall eftir að hafa slasast í keppni árið 1972. 

Í yfirlýsingu frá Marko segir hann að niðurstaðan á nýafstöðnu tímabili, þar sem að Max Verstappen, ökumaður Red Bull Racing, rétt missti af sínum fimmta heimsmeistaratitli eftir hetjulega endurkomu. hafi haft mikil áhrif á sig. 

„Mér er það ljóst að nú sé tímapunkturinn réttur fyrir mig til þess að binda enda á þennan langa en jafnframt farsæla feril.“

Brotthvarf Marko eru ekki einu stóru breytingarnar sem hafa átt sér stað hjá Red Bull Racing liðinu. Fyrr á árinu var Christian Horner, þáverandi liðsstjóri liðsins látinn fara en sá hafði verið liðsstjóri öll þau tímabil sem Red Bull Racing stóð uppi sem heimsmeistari. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×